Hafa aðeins nýtt helming fjárheimilda

Hluti þáttanna Game of thrones var tekinn upp hér á …
Hluti þáttanna Game of thrones var tekinn upp hér á landi.

Endurgreiðsla vegna kvikmyndagerðar á Íslandi hefur verið mun minni í ár en áætlanir gerðu ráð fyrir en í níu mánaða uppgjöri ríkisins kemur fram að aðeins hafi um 55% af áætluðum fjárheimildum undir þessum lið verið nýtt.

Kvikmyndaframleiðendur geta sótt um endurgreiðslur á 20% af framleiðslukostnaði vegna framleiðslu kvikmynda eða sjónvarpsefnis hér á landi.

50% samdráttur milli ára

Árið 2013 var endurgreiðsla vegna kvikmyndaframleiðslu hér á landi 938 milljónir og ári seinna var upphæðin komin upp í 1.608 milljónir. Samkvæmt níu mánaða uppgjöri ríkissjóðs er aftur á móti búið að greiða út 595 milljóni, en gert var ráð fyrir á þessum tímapunkti væru greiðslur komnar upp í 1.066 milljónir.

Sé sú upphæð uppreiknuð á tólf mánuði er niðurstaðan 793 milljónir, en það væri samdráttur upp á 50% milli ára.

Snorri Þórisson, framkvæmdastjóri kvikmyndafyrirtækisins Pegasus, segir að talsverðar sveiflur geti verið í þessum bransa og að á þessu ári hafi aðeins minna verið um verkefni og þau sem séu í gangi hafi dregist og þar af leiðandi uppgjöri þeirra.

Segir hann þetta skýra að miklu leyti þessar tölur um lægri endurgreiðslu. „Það er erfitt að gera áætlanir um svona verkefni, þau eru sjaldan línuleg,“ segir hann um áætlanagerð um endurgreiðslu fyrir kvikmyndir.

Kvikmyndaframleiðsla aukist gríðarlega undanfarin ár

Undanfarin ár hafa verið slegin hvert metið á fætur öðru í kvikmyndaframleiðslu og í fyrra var heildarvelta á framleiddu kvikmynduðu efni 15,5 milljarðar og hefur orðið 300% veltuaukning í greininni frá 2010.

Aðspurður hvort breyting hafi orðið á stærð verkefna segist Snorri ekki telja svo vera. Þó megi greina einhvern samdrátt í stórum auglýsingum, aðallega bílaauglýsingum, en framleiðendur hafi enn mikinn áhuga á að taka upp hér á landi.

„Það verður mikið í gangi á næsta ári,“ segir Snorri og bætir við að fleiri verkefni séu í gangi hjá öðrum fyrirtækjum en Pegasus og segist hann því ekki vera að stressa sig á þessum tölum varðandi endurgreiðslurnar.

Segir ekki hægt að tala um samdrátt

Hjá Pegasus er meðal annars unnið þessa dagana að næstu þáttaröð af Fortitude að sögn Snorra og þó nokkuð annað sé í bígerð. Segir hann að ekki sé hægt að tala um samdrátt í greininni þó að einhverjar sveiflur verði á tímabilum og er Snorri bjartsýnn á framhald íslenskrar kvikmyndagerðar.

Hann tekur þó fram að mikil samkeppni sé orðin um kvikmyndastaði og önnur lönd séu bæði ódýrari og hafi ákveðið að greiða meira til baka. Nefnir hann sem dæmi Írland sem sé komið í 30% endurgreiðslu á framleiðslukostnaði.

„Menn eru búnir að reikna að þetta megi hækka hér,“ segir hann, en bætir við að sannarlega séu mörk á því hvað slík endurgreiðsla geti verið há. Aftur á móti hafi t.d. Írar komist að þeirri niðurstöðu að í þessum geira séu miklir nýir fjármunir sem eftirsóknarvert sé að fá í hagkerfið. „Það er spurning hversu langt við viljum teygja okkur,“ segir Snorri.

Þáttaröðin Fortitude var tekin upp hér á landi. Önnur þáttaröð …
Þáttaröðin Fortitude var tekin upp hér á landi. Önnur þáttaröð er nú í bígerð.
Ben Stiller tók upp mynd sína The secret life of …
Ben Stiller tók upp mynd sína The secret life of Walter Mitty hér á landi árið 2012. mbl.is/Einar Bragi Bragason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert