„Við þurfum að breytast“

Mikill fjöldi var við mótmælin í kvöld.
Mikill fjöldi var við mótmælin í kvöld. mbl.is/ Árni Sæberg

Ekki hefur enn verið fyllilega úr því skorið hvort lögreglan hafi gert mistök með því að ákveða að fara ekki fram á gæsluvarðhald yfir tveimur mönnum sem sakaðir eru um að hafa nauðgað tveimur konum í íbúð í Hlíðunum. Þetta segir Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yf­ir­lög­fræðing­ur á skrif­stofu lög­reglu­stjór­ans á höfuðborg­ar­svæðinu, í samtali við mbl.is en hún segir jafnframt að rangt sé að íbúðin hafi verið „sérútbúin“ fyrir athæfið.

Alda var viðstödd hluta mótmælanna við lögreglustöðina að Hlemmi í kvöld ásamt Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra. Mótmælin standa enn yfir þegar blaðamaður mbl.is fær að hlaupa inn baka til upp á skrifstofu Öldu þar sem heyrist vel í köllum mótmælenda.

Alda segir mótmælin vel skiljanleg að mörgu leiti, að þeim hafi verið ákveðinn aðdragandi og að að það sé alveg ljóst að til staðar sé krafa frá samfélaginu um breytt vinnubrögð í þessum málaflokki.

„Og við þurfum bara að standa undir því. Við þurfum að vinna úr því en þó þannig að við séum að gæta allra laga og hlutlægni og finna leiðir til að gera betur. Miðað við þau mótmæli sem hafa verið hér í kvöld þá er alveg ljóst að það er ekki verið að mótmæla bara einu máli, það er verið að mótmæla kerfinu og hvernig kerfið tekur á kynferðisbrotum.“

Hún segir mótmælin þannig beinast gegn fleirum en bara lögreglunni t.a.m. ákæruvaldinu og dómstólum. Hinsvegar sé lögreglan ekki hafin yfir gagnrýni og að mikilvægt sé að rýna í hennar störf.

„Við höfum mikinn samhug með því sem er verið að ræða og þurfum að breyta kerfinu, eins og við höfum áður sagt, þannig að það verði aðeins þolendamiðaðra, þannig að þolandi þurfi ekki beinlínis að sanna allt heldur þurfum við að gera það o.s.frv.“

„Samfélagið er að breytast og við þurfum að breytast samhliða því.“

Alda Hrönn Jóhannsdóttir.
Alda Hrönn Jóhannsdóttir. mbl.is/Júlíus

Sjaldan farið fram á farbann

Á samfélagsmiðlum hefur verið fullyrt að mennirnir hafi báðir farið úr landi. Alda getur ekki staðfest þær fréttir og kveðst hún hreinlega ekki þekkja til þess.

 „Það er mjög sjaldan farið fram á farbann yfir Íslendingum vegna tengsla við landið auk þess sem íslenska ríkið hefur miklar heimildir til að óska eftir framsali á sínum ríkisborgurum samkvæmt alþjóðasamningum.“

Hún segir það því ekki koma niður á rannsóknarhagsmunum að mennirnir hafi farið úr landi.

„Mönnunum var sleppt úr haldi af því að það var talið að rannsóknarhagsmunir krefðust þess ekki að þeir væru lengur inni.“

Mat lögreglu á rannsóknarhagsmunum og hagsmunir þolenda virðast ekki endilega fara saman í þessu tilviki og hafa margir bent á að þegar gerendur sleppi við gæsluvarðhald geti það verið eins og að hneppa þolendur í gæsluvarðhald.

„Þetta er náttúrulega margs eðlis þar sem við erum líka bundin af alþjóðasáttmálum um réttindi sakborninga. Þetta eru lögin sem við höfum, við þurfum að vinna eftir þeim og við getum ekki breytt þeim. Stjórnvöld semja leikreglurnar og við förum eftir þeim,“ segir Alda og sér fyrir næstu spurningu blaðamanns, enda þykir fullljóst að lögregla hafði heimild til að hneppa mennina í gæsluvarðhald.

„Auðvitað er þetta alltaf mat hverju sinni. Þetta er lagaleg ákvörðun, byggð á lögfræði og hún er matskennd. Við þurfum auðvitað alltaf að vera tilbúin að fara í saumana á því hvort við höfum tekið rétta ákvörðun eða ekki, af því að þetta er mat.“

Sigríður Björk ávarpaði mótmælendur en henni var illa tekið.
Sigríður Björk ávarpaði mótmælendur en henni var illa tekið. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki „sérútbúin“

Lögreglan gaf út fréttatilkynningu fyrr í dag þar sem fram kom að upplýsingar sem fram hefðu komið í fjölmiðlum stemmdu ekki við gögn lögreglu. Sagði orðrétt: „Nauðsynlegt er þó að taka fram að sumt í umfjöllun fjölmiða er ekki í samræmi við fyrirliggjandi rannsóknargögn lögreglu.“ 

Alda skýrir misræmið sem átt er við nánar.

„Það að íbúðin hafi verið sérútbúin til þessara brota er ekki samkvæmt þeim gögnum sem við höfum. Hefðu okkar gögn verið nákvæmlega samhljóða öllu því sem fram hefur komið í fjölmiðlum held ég að ég geti sagt að við hefðum farið fram á gæsluvarðhald.“

Alda segir vissulega rétt að það hvort íbúðin hafi ekki verið „sérútbúin“ þýði ekki að þeir hlutir sem lýst hefur verið í fjölmiðlum hafi ekki verið til staðar í íbúðinni þó að hún geti ekki tjáð sig um þá frekar. Ásetningur væri hinsvegar mun skýrari ef íbúðin hefði verið sérútbúin til þessara athafna og að orðalag fjölmiðla hafi þannig vakið upp mjög sterkar myndir sem eiga sér ekki endilega fulla stoð í rannsóknargögnum.

„Þurfum að rjúfa þöggunina“

Alda segir enn ekki fyllilega ljóst hvort rétt ákvörðun hafi verið tekin í tilfelli hinna meintu raðnauðgara í Hlíðunum. Kallið eftir viðbrögðum lögreglu sé sterkt en hún þurfi einfaldlega meiri tíma til að rýna í öll atriði málsins. Fundað var um málið í dag en segir Alda að þeim fundi hafi einna helst verið ætlað að koma henni og öðrum sem koma til með að fjalla um málið betur inn í það.

„Við þurfum alltaf að vera reiðubúin að fara betur í málin. Gerðum við rangt eða gerðum við ekki rangt, það þurfum við að vera tilbúin að fara yfir.

Alda hefur varla sleppt orðinu þegar mikil fagnaðarlæti brjótast út fyrir utan. Ungur maður gengur úr ræðustól. Nokkuð hefur fækkað í hópi mótmælenda en þó er enn nokkuð fjölmenni og tilfinningahitinn er mikill.

„Ég held að þetta hafi verið dropinn sem fyllti mælinn,“ segir Alda þegar blaðamaður spyr út í tengsl mótmælanna við netbyltingar síðustu mánaða. Hún segir mótmælin í eðli sínu jákvæð. „Brotin þrífast í þögninni og við þurfum að rjúfa hana. Aðferðir og allt svona getum við rætt en við þurfum að rjúfa þöggunina.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert