Björgunaráætlun kynnt á morgun

Á mánudaginn í síðustu viku þegar Perlan sökk í höfninni.
Á mánudaginn í síðustu viku þegar Perlan sökk í höfninni. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

Ekki er hægt að útiloka aðrar orsakir en að botnloki hafi ekki verið festur á skipinu Perlunni þegar það sökk í Reykjavíkurhöfn í síðustu viku. Skipið situr þannig að ekki er hægt að kafa og skoða botninn heldur sjást aðeins síðurnar. Á morgun mun skýrast betur hvernig björgunaráætlun skipsins er, en hún verður kynnt fyrir stjórnendum Faxaflóahafna. Þetta segir Gísli Gíslason, forstöðumaður Faxaflóahafna.

Hann segir félagið Björgun, sem er eigandi skipsins, nú vera að vinna áætlun til að ná skipinu upp. Gísli hefur sjálfur ekki séð áætlunina en segir að mestur fókus verði á að undirbúa aðgerðina mjög vel og þegar farið verði af stað að þá hafist verkefnið að fullu.

Gísli segir veðurspána vera lítið áhyggjuefni sem standi þar sem engin stórviðri séu á leiðinni. „Það gerir okkur rólegri,“ segir hann.

Enn er mikill leki af framskipinu og segir Gísli að áfram sé glímt við það hvernig staðið verði að björguninni með það í huga. Segir hann að væntanlega þurfi að reyna að þétta lekann.

Ljóst er að björgunaraðgerðir hafa kostað mikið og segir Gísli að mikill mannskapur og tæki hafi verið notuð undanfarna daga. „Þá er þetta fljótt að telja,“ segir hann, en bætir við að það sé mál sem tryggingarfélagið og Björgun muni gera upp á milli sín.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert