Fyrsta skóflustungan að sjúkrahótelinu

Tölvuteikning af sjúkrahótelinu
Tölvuteikning af sjúkrahótelinu

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra tók í morgun fyrstu skóflustungu að nýju sjúkrahóteli.

Sjúkrahótelið mun rísa á opnu svæði á milli barnaspítala Hringsins og kvennadeildar Landspítalans við Hringbraut. 

Ráðherra skrifaði jafnframt undir samning um byggingu hótelsins, en samningurinn er milli NLS Saga, sem var lægstbjóðandi í verkið, og hlutafélagsins Nýr Landspítali ohf. Áætluð heildarstærð sjúkrahótels er um 4.000 fermetrar.

„Sjúkrahótelið er hluti af fyrsta áfanga uppbyggingar Nýs Landspítala (NLSH) við Hringbraut. Það rís á norðurhluta lóðar spítalans milli kvennadeildar, K-byggingar og Barónsstígs og verður tekið í notkun árið 2017. Í sjúkrahótelinu verða 75 herbergi og með tilkomu þess breytist aðstaða fyrir sjúklinga og aðstandendur mikið til batnaðar,“ segir í fréttatilkynningu frá nýjum Landspítala.

Framkvæmdir munu hefjast fljótlega á lóð Landspítala. Í fyrstu er um að ræða gerð bráðabirgðabílastæða á svæðinu sunnan við aðalbyggingu Landspítala sem koma í stað annarra stæða sem verður lokað tímabundið þegar framkvæmdir hefjast við byggingu sjúkrahótelsins. Þessari framkvæmd verður lokið um miðjan desember.

Aðalhönnuður sjúkrahótelsins er KOAN-hópurinn en forhönnun, skipulagsgerð, hönnun gatna og lóðar er unnin af Spitalhópnum. Húsið verður prýtt með steinklæðningum, listaverki eftir Finnboga Pétursson myndlistarmanni.

Sjúkrahótelið verður fjórar hæðir og kjallari. Byggingin er 4.258 fermetrar að stærð (brúttó), 14.780 rúmmetrar (brúttó) með kjallara og tengigöngum. Hótelið mun tengjast barnaspítala og kvennadeild um tengigang. Samningsfjárhæð er samkvæmt tilboði verktaka og samkvæmt ákvæðum útboðsgagna kr. 1.833.863.753.

Í skýrslu sem var unnin fyrir Samtök atvinnulífsins kemur fram að gert er ráð fyrir því að byggingarkostnaður nýs sjúkrahótels verði um tveir milljarðar króna með lóða- og hönnunarkostnaði.

Í gær voru opnuð tilboð í umsjón og eftirlit með framkvæmdum við byggingu sjúkrahótels. Bygging sjúkrahótelsins er hluti af fyrsta áfanga byggingar nýs Landspítala við Hringbraut. Um er að ræða eftirlit með byggingu sjúkrahótels og við framkvæmdir á lóð.

Fimm tilboð bárust í eftirlitið og var lægsta tilboðið frá Verkís hf, eða kr. 27.450.000, sem er 26,8% undir kostnaðaráætlun sem hljóðar upp á kr. 37.500.000.

Tölvuteikning af sjúkrahótelinu.
Tölvuteikning af sjúkrahótelinu.
Tölvuteikning af sjúkrahótelinu.
Tölvuteikning af sjúkrahótelinu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert