Notfæra sér DHL í stað ÁTVR

Áslaug Arna ásamt fulltrúa DHL með vínið fyrir utan heimili …
Áslaug Arna ásamt fulltrúa DHL með vínið fyrir utan heimili hennar fyrr í dag. Ljósmynd/Úr einkasafni

„DHL kemur bara með þetta heim til mín beint upp að dyrum án nokkurrar aðkomu ÁTVR og maður borgar áfengistoll af þessu við hurðina,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, laganemi og ritari Sjálfstæðisflokksins í samtali við mbl.is en hún fékk í dag sent heim til sín vín frá vinafólki erlendis sem framleiðir vín. Hún segir það mjög auðvelt að panta vín erlendis frá án aðkomu ÁTVR.

Áslaug bendir á að fólki sé heimilt að versla áfengi án milligöngu ÁTVR ef vínsalinn ber ekki skattaskyldu á Íslandi. Þeir sem framleiða og selja vínið verða að borga skatta erlendis. „Það er auðvitað mjög sérstakt að vínsalinn geti selt áfengi hingað án milligöngu ÁTVR, án þess að borga skatta á Íslandi, en Íslendingar geta ekki gert það sama,“ segir Áslaug.

Missa réttindi á því að búa á Íslandi

Hún segir það vandræðalegt að hér á landi sé bannað að stunda netverslun á áfengi útaf lýðheilsusjónarmiðum. „Fólk er í raun og veru að missa réttindi á því að búa á Íslandi og reka hér fyrirtæki. Ef að Íslendingur vildi gera það sama þyrfti hann að senda áfengið fyrst erlendis og svo til Íslands aftur.“

Hún segir fjölmarga Íslendinga nýta sér þann möguleika að panta vín erlendis frá. „Fólk áttar sig ekki á því að það eru fjölmargir farnir að sniðganga ÁTVR og kaupa bara vín erlendis frá og fá sent heim. Það eru  fullt af fyrirtækjum sem selja vín, vínveitingahús og búðir sem hafa vínveitingaleyfi sem gera þetta án nokkurrar aðkomu ÁTVR.

„Fólk hlýtur að fara að átta sig á því hversu skrýtið það er að við getum ekki gert þetta eins og önnur lönd,“ segir hún.

Rúmur þúsund kall á flösku í toll

Áslaug segir það mjög einfalt ferli að fá vínið sent heim erlendis frá. „Maður þarf ekki að gera neitt nema láta senda þetta til sín og taka á móti þessu. Það er síðan einhver tollur sem þarf að borga en hann er ekki mjög hár þegar þetta er ekki mikið magn.“ Hún áætlar að hún hafi greitt tæpar þúsund krónur í toll á hverja flösku. Hún segir það merkilega staðreynd að póstþjónustuaðilar geti afgreitt vín án milligöngu ÁTVR. Hún efast um að margir átti sig á  þessum möguleika.

Hún segir jafnframt að það séu margir sem trúi því að ríkisvaldið verði af tekjum vegna gjalda ef ÁTVR er lagt niður. „En ríkið er að verða af þessum gjöldum útaf ÁTVR og útaf þessum hömlum. Það eru svo mörg gjöld og skattar sem Ísland er að verða af því frjáls sala áfengis er bönnuð hérna.“

Hún segir að sé hafi ekki sjálfri dottið það í hug að panta vín erlendis frá fyrr en henni var send þessi gjöf.

„Þá áttaði mig á því hversu auðvelt það var að fá vín án aðkomu ÁTVR og ríkisins og sá hvað þetta var einfalt. Ætti það ekki að vera markmið flestra að geta keypt sér löglegar vörur án þess að ríkið skipti sér af því?“ spyr hún að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert