Sagði lögreglumanni að passa sig

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Dómur yfir manni sem var dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir umferðarbrot og brot gegn valdstjórninni var staðfestur í Hæstarétti í dag. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins var þess krafist að refsing ákærða verði þyngd en ákærði krafðist sýknu.

Í héraðsdómi var maðurinn fundinn sekur um umferðarlagabrot og brot gegn valdstjórninni en samkvæmt ákæru sagði maðurinn lögreglumanni að hann myndi muna eftir andliti hans, og að hann ætti að passa sig því ákærði ætti eftir að hitta hann einan úti á götu. Lögreglumaðurinn var við skyldustörf og hafði afskipti af manninum fyrir að vera ekki með spennt öryggisbelti. Hinn ákærði neitaði því að hafa ekki verið með spennt belti og neitar því einnig að hafa verið með fúkyrði í garð lögreglumannanna. Að sögn lögreglumannanna var hann ógnandi í framkomu og sinnti ekki ítrekuðum fyrirmælum um að hverfa frá.

Ákærði neitaði sök og sagðist hafa verið með öryggisbeltið spennt, en undir handleggi sínum eins og hann gerði alla jafna. Eftir að lögregla stöðvaði hann á Vitastíg á annar lögreglumannanna að hafa stigið af hjólinu og fullyrt að hann hefði ekki verið með öryggisbelti spennt, en hinn ákærði neitaði því. Lögreglumaðurinn hefði byrjað að rita skýrslu um meint brot hans og spurði ákærði þá lögreglumanninn hvort hann væri klikkaður og að þetta myndi hafa eftirmála. Með því meinti hann þó ekki að hann myndi ekki una sektarákvörðun.

Að sögn hins ákærða hefði lögreglumaðurinn síðan sagt honum að hafa sig á brott en þar sem ákærði var kominn á leiðarenda, til þess að hitta félaga sinn, gerði hann það ekki. Hann neitaði því að hafa viðhaft þau ummæli sem í ákæru greinir. Jafnframt sagðist  hann ekki hafa séð andlit lögreglumannanna, þar sem þeir hefðu verið með hjálma.

Lögreglumennirnir voru þó báðir sammála um það að hinn ákærði hefði ekki haft spennt belti. Annar þeirra hafði séð í sylgju beltisins og hinn lýsti því að hann hefði séð beltið lafa niður. Að sögn lögreglumannanna tók ákærði afskiptum þeirra illa, var æstur og hrópaði að þeim fúkyrði. Lögreglumaðurinn staðfesti einnig ógnandi ummæli mannsins sem komu fram í ákæru. Hinn lögreglumaðurinn staðfesti þau einnig í yfirheyrslu.

Báðir lögreglumennirnir lýstu því að hjálmar þeirra væru þannig búnir að á þeim væri kjálkastykki, sem þeir lyftu upp þegar þeir ræddu við fólk. Hefðu andlit þeirra því sést greinilega þegar þeir ræddu við ákærða.

Dómur Hæstaréttar í heild sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert