Horfðust í augu við dauðann í 72 tíma

Þórður Guðlaugsson (t.v.) ásamt Óttari Sveinssyni í útgáfuhófinu í gær, …
Þórður Guðlaugsson (t.v.) ásamt Óttari Sveinssyni í útgáfuhófinu í gær, í tilefni af útkomu nýjustu Útkallsbókar Óttars sem fjallar um óveðrið og hörmungarnar á Nýfundnalandsmiðum í ársbyrjun 1959. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vorum sannarlega í mikilli hættu og allir skipverjar hræddir. Enginn sem þarf að horfast í augu við dauðann í 72 tíma, og veit ekki á hvorn veg fer, kemst hjá því að finna til hræðslu,“ segir Þórður Guðlaugsson, fyrrverandi vélstjóri, þegar hann rifjar upp svaðilför díseltogarans Þorkels mána RE 205 á Nýfundnalandsmið snemma árs 1959. Þórður, sem nú er 82 ára gamall, var 1. vélstjóri um borð í þessari eftirminnilegu ferð. Atburðirnir eru rifjaðir upp í nýútkominni bók Óttars Sveinssonar, Útkall í hamfarasjó.

Fleiri íslensk fiskiskip voru á miðunum við Nýfundnaland þegar þar skall á eitthvert allra versta sjóveður sem Íslendingar hafa lent í á síðustu öld. Auk Þorkels mána voru þar Harðbakur, Júní, Júlí, Marz, Norðlendingur, Bjarni riddari og fleiri skip. Á skipin öll hlóðst stórhættuleg ísing. Sjórinn var mínus tvær gráður. Á þriðja hundrað íslenskir togarasjómenn voru í lífshættu. Einn togaranna, Júlí frá Hafnarfirði, fórst í óveðrinu og með honum 30 skipverjar. Á tímabili lá Þorkell máni fulllestaður eins og borgarísjaki á hliðinni. Öldurnar í kring voru á við átta hæða hús. Barist var upp á líf og dauða við að berja ís.

Losuðu sig við bátana

Þórði Guðlaugssyni er í fersku minni hvernig nær örmagna skipverjarnir stóðu í ógnarveltingi og blindbyl úti á glerhálli ísingunni með járnbolta, sleggjur og önnur tiltæk barefli. Vegna klakabunkanna sást vart í brúna á skipunum – vírar og kaðlar voru eins og tunnubotnar að þykkt. Brá áhöfn Þorkels mána á það örþrifaráð að losa sig við björgunarbátana og logskera davíðurnar í burtu til að létta skipið.

Svo svart var ástandið um tíma að skipstjórinn, Marteinn Jónasson, hugleiddi að láta möstrin fara líka. Annaðhvort yrði ísinn barinn af eða dauðinn einn blasti við. Og til allrar hamingju hafði áhöfnin betur í viðureigninni við höfuðskepnurnar. Skipti sköpum að togarinn Mars kom Þorkeli mána til aðstoðar.

„Atburðirnir höfðu mikil áhrif á flesta skipverjana og margir voru lengi að jafna sig,“ segir Þórður. Sumir voru orðnir óvinnufærir vegna þreytu, ótta og meiðsla í miðjum hamaganginum. Nokkrir hættu sjómennsku þegar heim kom, aðrir fundu sér pláss í skipum á öruggari miðum.

Sjálfur hélt Þórður sínu striki og fór með Þorkeli mána í næsta veiðitúr. Árið 1966 fór hann í land um tíma, en varð síðar vélstjóri á Þormóði goða, Bjarna Benediktssyni en lengst á togaranum Ottó N. Þorlákssyni.

Í hófi sem haldið var í gær í tilefni af útgáfu bókarinnar voru auk Þorkels, loftskeytamaðurinn á Þorkeli mána, Valdimar Tryggvason, stýrimaðurinn á Mars, Albert Stefánsson, og Arngrímur Jóhannsson flugmaður sem var loftskeytamaður á Harðbaki. Þar voru einnig margir aðstandendur skipverja og börn sjómannanna af Júlí frá Hafnarfirði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert