Efli löggæslu, óháð árásum

Ólöf Nordal, innanríkisráðherra.
Ólöf Nordal, innanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekkert bendir til þess að Íslendingar þurfi að hafa áhyggjur af hryðjuverkaárásum hér á landi þrátt fyrir árásirnar í París á föstudaginn, að mati Ólafar Nordal, innanríkisráðherra. Hún telur mikilvægt að efla almenna löggæslu í landinu, óháð aukinni hryðjuverkaógn í Evrópu.

Íslensk stjórnvöld hafa ekki gripið til neinna sérstakra varúðarráðstafana í kjölfar hryðjuverkanna í Frakklandi á föstudag. Á annað hundrað manns eru látnir eftir þau og fjölmargir aðrir eru alvarlega sárir.

„Við höfum ekki metið það svo að það þurfi að herða á neinu hér ennþá. Svona atburðir kalla fram þessa hættu sem er til staðar í heiminum en það er ekkert sem bendir til þess að við þurfum að hafa áhyggjur af hlutum hér heima. Við þurfum bara að fylgjast með,“ segir Ólöf í samtali við mbl.is og leggur áherslu á að varlega verði farið í þessum málum.

Snýst um mönnum og sýnileika lögreglunnar

Spurð að því hvort að íslenska lögreglan sé í stakk búin til að takast á við hryðjuverk af því tagi sem voru framin í París bendir Ólöf á að frönsk yfirvöld hafi ekki verið það. Það sé hins vegar mikilvægt að lögreglan sé nægilega öflug en í hennar huga snúist það aðallega um mönnun og sýnileika lögreglunnar.

„Við vitum að við höfum þurft að skera mikið niður í löggæslunni og við þurfum að bæta þar úr. Ég held að það snúist fyrst og fremst um mönnun og sýnileika lögreglu. Við skulum bara fara mjög varlega í að draga of miklar ályktanir á þessu stigi. Ég er á þeirri skoðun að það sé nauðsynlegt að efla almenn löggæslu í landinu, óháð þessu. Það eru stöðugt vaxandi verkefni lögreglunnar út af fjölgun ferðamanna, auknu umferðareftirliti og slíkum hlutum. Það er sjálfstætt mál og við verðum að gæta að öryggi borgaranna,“ segir innanríkisráðherra.

Ríkislögreglustjóri fylgist með því sem gerist í nágrannalöndunum og stjórnvöld fylgjast með áhrifum árásanna á Schengen-samstarfið. Ólöf segir hins vegar að ekkert hafi komið fram um það á þessu stigi.

„Við erum hluti af þessum heimi, við verðum að fylgjast grannt með því sem gerist og fara að öllu með gát en það er engin ástæða fyrir okkur til að ganga lengra en það á þessu stigi,“ segir hún.

Menn tali með gát og yfirvegun

Ummæli Snorra Magnússonar, formanns Landssambands lögreglumanna, um árásirnar á föstudag hafa vakið töluverða athygli. Í færslu á Facebook-síðu sinni kenndi Snorri meðal annars Schengen-samstarfinu og „almennri linkind og umburðarlyndi Evrópu allrar gagnvart innrás ósamrýmanlegra sjónarmiða vestrænna gilda lýð- og frjálsræðis“ um árásirnar í París.

Ólöf segir að menn þurfi að reyna að tala með gát og yfirvegun, ekki síst þeir sem eftir sé tekið í umræðunni.

„En ég get alveg skilið að það eru miklar tilfinningar þegar svona hrikalegir atburðir verða en það er mikilvægt að fólk fari fram með gát,“ segir hún.

Lögreglumenn vakta götur Parísar eftir hryðjuverkaárásirnar á föstudaginn.
Lögreglumenn vakta götur Parísar eftir hryðjuverkaárásirnar á föstudaginn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert