Við fundum stúlku á lífi, við fundum stúlku á lífi!

Leitarmenn að störfum á Flateyri 26. október 1995.
Leitarmenn að störfum á Flateyri 26. október 1995. mbl.is/RAX

Frystitogarinn Pétur Jónsson RE-69 var fyrsta skipið á vettvang eftir að mannskætt snjóflóð féll á Flateyri fyrir tuttugu árum. Fimnmtán manns úr áhöfninni fóru í land og tóku þátt í leitinni að fólkinu sem var saknað. Alls komu skipverjarnir að því að finna nítján manns, þar af eina stúlku á lífi. Morguninn eftir hélt skipið af stað í þriggja vikna veiðitúr og áhöfnin þurfti að vinna úr reynslu sinni upp á eigin spýtur. Núna, tuttugu árum síðar, hittust sex úr áhöfninni til að ræða þátt sinn í björgunarstarfinu og segja sögu sem að óverulegu leyti hefur verið sögð opinberlega áður.

Þeir fallast í faðma félagarnir sex sem voru í áhöfn frystitogarans Péturs Jónssonar RE-69 fyrir réttum tuttugu árum. Sumir þeirra hafa verið í góðu sambandi, aðrir hafa varla sést í allan þennan tíma. Tilefni fundarins er að rifja upp reynslu sem haft hefur djúpstæð áhrif á líf þeirra allra en Pétur Jónsson var fyrsta skipið sem kom til hafnar á Flateyri eftir að snjóflóðið mannskæða féll aðfaranótt 26. október 1995. Fyrir utan blaðaviðtal sem einn skipverja fór í skömmu eftir flóðið hefur ekki verið rætt um aðkomu þeirra að björgunarstarfinu opinberlega og þeirra yfirleitt ekki getið í heimildum. Fyrir vikið er löngu tímabært að rjúfa þögnina.

Sexmenningarnir eru Erlingur Birgir Kjartansson, kallaður Birgir, Friðgeir Bjarkason, Kristján Sigurður Pétursson, Ólafur William Hand, Pétur Blöndal og Ragnar Þór Ólason, betur þekktur sem Raggi Óla. Alls voru tuttugu manns í áhöfn en skipstjóri var útgerðarmaðurinn sjálfur, Pétur Stefánsson.

Klukkan 4:07 aðfaranótt 26. október 1995 féll snjóflóð úr Skollahvilft á Flateyri með þeim afleiðingum að mörg hús eyðilögðust og á þriðja tug manna var saknað. Neyðarkall var sent út til nálægra skipa, meðal annars Péturs Jónssonar RE sem var undir Grænuhlíð í Ísafjarðardjúpi í vari. Kolvitlaust veður var fyrir vestan og skipverjarnir segjast aldrei hafa verið eins lengi í vari, líklega fimm eða sex daga. Önnur skip voru ekki á þessum slóðum, einhver inni á Ísafirði en gátu sig hvergi hrært, þar sem fraktskip hafði strandað í innsiglingunni. Einhver skip biðu einnig af sér veðrið inni á Patreksfirði.

Neyðarsigling. Pétur Jónsson RE-69 í hafrótinu. Myndin er samsett eftir …
Neyðarsigling. Pétur Jónsson RE-69 í hafrótinu. Myndin er samsett eftir lýsingum og upplifun skipverja af siglingunni. mbl.is/RAX

Keyrði trekk í trekk á ölduna

Birgir var staddur í brúnni þegar neyðarkallið kom. Hann segir veðrið hafa verið snarvitlaust og loftþrýsting mikinn en eigi að síður hafi ekki komið annað til greina en að setja stefnuna strax á Flateyri. Einar Sturluson, fyrsti stýrimaður, var við stýrið en Pétur skipstjóri kom fljótt upp. Þess má geta að tvö skip fengu á sig alvarlegan brotsjó fyrir vestan þennan dag, Margrét EA og Sléttbakur EA, á leið frá Patreksfirði.

Áhöfnin var ræst og vissi ekki fyrri til en skipið var komið á svakasiglingu upp í ölduna. Ólafur, sem var nýjasti meðlimurinn um borð, rifjar upp að honum var sagt að vera tilbúinn að fara í flotgalla ef með þyrfti. „Menn vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið,“ segir hann. Þá minnir að siglingin hafi tekið á bilinu þrjá til fjóra tíma og eru sammála um að áhöfnin hafi verið í lífshættu á meðan. Slíkur var veðurhamurinn. „Skipið keyrði trekk í trekk á ölduna á leiðinni til Flateyrar, þetta var neyðarsigling,“ bætir Ólafur við.

Til allrar hamingju var Pétur Jónsson kraftmikið og vel byggt skip og skipstjórnendur eldri en tvævetur, þannig að siglingin gekk vonum framar.

Veðrið var óvenju slæmt fyrir þennan árstíma og Raggi Óla rifjar upp að prýðilega hafi viðrað annars staðar á landinu.

Frá minningarathöfn sem haldin var í kirkjunni á Flateyri að …
Frá minningarathöfn sem haldin var í kirkjunni á Flateyri að kvöldi hinna voveiflegu viðburða. Þá var eitt lítið barn ennþá ófundið og menn héldu í vonina. mbl.is/RAX

Skipið komst ekki alla leið til hafnar og sóttu björgunarsveitarmenn áhöfnina á slöngubát og ferjuðu hana síðasta spottann í land, fimmtán manns. Fimm urðu eftir um borð í skipinu. Skipverjar muna ekki nákvæmlega klukkan hvað þeir komu í land á Flateyri en telja það hafa verið laust fyrir klukkan níu um morguninn. Heimamenn höfðu þá unnið baki brotnu við björgunarstörf frá því flóðið féll og skömmu eftir að áhöfnin á Pétri Jónssyni kom til Flateyrar kom annað skip með björgunarsveitarmenn frá Ísafirði, það hafði siglt með mennina yfir fjörðinn frá Holti.

Ennþá snjóflóðahætta

„Menn geta búist við ýmsu á sjó en enginn okkar hafði reynslu eða þekkingu á björgunarstörfum á landi,“ segir Kristján en áhöfnin var drifin beint inn í björgunarmiðstöðina í þorpinu sem var til húsa í bakaríinu. Snjóflóðahætta var enn á staðnum og Raggi Óla rifjar upp að þeim hafi verið gert að setja málmbolta inn á sig svo auðveldara væri að finna þá með málmleitartækjum græfust þeir í fönn við björgunarstörfin. Þeim var líka úthlutað þeim snjóflóðaýlum sem til voru á staðnum sem myndi auðvelda leit að þeim ef annað flóð félli. „Ég gat ekki séð að heimamenn væru sjálfir með neinar ýlur, þeir grófu bara og grófu,“ segir Raggi Óla.

Snjóflóð , Flateyri
Snjóflóð , Flateyri Rax / Ragnar Axelsson

Þeir eru sammála um að heimamenn á Flateyri hafi unnið þrekvirki við skipulagningu og leitina sjálfa. Nógu erfitt hafi verið fyrir vandalausa að halda einbeitingu og sönsum við þessar skelfilegu aðstæður. Á Flateyri þekktust meira og minna allir og sumir leituðu ættingja sinna og vina.

Það var kolsvartamyrkur og kafaldsbylur þegar áhöfnin lagði af stað í átt að húsunum sem orðið höfðu flóðinu að bráð. Þeir skiptu sér niður í fjögurra manna hópa og með hverjum hópi var einn heimamaður. Birgir segir menn ekki hafa séð handa sinna skil. „Við vissum ekki einu sinni hvar fjallið var. Það rann allt saman í myrkrinu og hríðinni,“ segir hann en allt rafmagn hafði farið af þorpinu.

Eyðileggingin blasti við

Ólafur bætir við að heimamenn hafi leiðbeint þeim, eins og hægt var. „Það var engin leið að átta sig á því hvernig þorpið sneri.“

Þess má geta að Pétur Jónsson RE var búinn öflugum ljósabúnaði og lýsti skipið upp hlíðina meðan myrkrið var mest. Segja skipverjar það tvímælalaust hafa hjálpað til við leitina.

Áhöfnin var prýðilega útbúin til leitarinnar við þessi erfiðu skilyrði; menn voru vel skóaðir og klæddir vinnuflotgöllum sem veittu gott skjól. Ekki mun þó hafa verið auðvelt að grafa í þeim klæðum.

Flateyri, daginn eftur flóðið.
Flateyri, daginn eftur flóðið. mbl.is/RAX

Það kom sér vel að skipið hafði verið nokkra daga í vari og menn fyrir vikið vel úthvíldir.

Fyrst um sinn gerðu menn sér enga grein fyrir afleiðingum flóðsins; það sást einfaldlega ekki neitt. Þegar birti og sljákkaði aðeins í veðrinu blasti eyðileggingin hins vegar við. Félagarnir segja enga leið að lýsa henni með orðum. „Þá kom sjokkið. Til að byrja með gerðum við okkur enga grein fyrir hættunni sem við vorum í. Kannski eins gott. Þarna voru ofboðsleg öfl á ferð,“ segir Birgir.

Pétur rifjar upp að sér hafi létt mikið þegar loksins sást upp í Skollahvilftina en hlíðin mun hafa verið gjörsamlega hreinsuð af snjó. Friðgeir tekur undir þetta. „Maður sá sárið sem flóðið hafði skilið eftir sig í hlíðinni. Það var léttir.“

Þeir segja að súrrealískt hafi verið að sjá raflagnir standa út úr molnuðum veggjum og átakanlegt að finna persónulega muni fólks á stangli í rústunum. Þeir nefna í því sambandi skartgripi, ljósmyndir og peningabauk sem fannst í einu húsinu. Þá kom stráheil kristalsskál upp úr öðru húsi. Hvernig í ósköpunum sem það gat staðist. Seinna kom í ljós að mörg börn höfðu verið skírð upp úr skálinni. Vegir Guðs eru sannarlega órannsakanlegir.

Minnti á Hiroshima

Þá höfðu tré slitnað upp með rótum og töfðu moksturinn. Grafið var af varfærni í snjónum enda vitað af fólki undir sköflunum. „Maður hafði aldrei upplifað neitt þessu líkt. Eyðileggingin minnti einna helst á myndir frá Hiroshima,“ segir Ólafur og Birgir bætir við að í sumum húsanna hafi ekkert verið eftir nema parketið.

Hluti hópsins tók þátt í björgunarstarfi á Hjallavegi 10, þar sem heillar fjölskyldu var saknað; þrítugra hjóna og barna þeirra þriggja, á aldrinum eins til fjögurra ára. Foreldrarnir og tvö barnanna fundust skömmu eftir hádegi. Þau voru öll látin. Yngsta barnið fannst ekki fyrr en morguninn eftir, líka látið. „Það var ofboðslega erfitt að finna ekki yngsta barnið strax og geta ekki sameinað fjölskylduna,“ segir Raggi Óla.

Þeir rifja upp þegar Raggi Óla gróf eitt barnanna upp úr rústunum og rétti það lækni, sem var viðstaddur. Þeir segjast aldrei gleyma svipnum á lækninum þegar hann tók við lífvana barninu og hvarf með það inn í sortann. Síðan héldu þeir áfram að grafa. „Vonin um að finna einhvern á lífi hélt okkur gangandi,“ segir Raggi Óla en sama snjónum var mokað aftur og aftur.

Í rústum annars húss fannst sambýlisfólk látið. Það hafði fært sig yfir í stofu hússins en eina herbergið sem slapp var einmitt hjónaherbergið. Þau geta verið kaldhæðin, örlögin.

Í enn öðrum rústum fundust hjón í rúmi sínu, hafa líklega bara lagst til svefns og ekki vitað meir.

Öndunarbráðnun í snjónum

Áhöfnin veitti því athygli að hjá að minnsta kosti einum hinna látnu var öndunarbráðnun í snjónum sem benti til þess að viðkomandi hefði ekki látist samstundis. Það reyndi á mannskapinn.

Alls tók áhöfnin á Pétri Jónssyni þátt í að grafa upp átján af þeim tuttugu sem létust í flóðinu. Enginn þeirra bjó að reynslu í þeim efnum og ekki með neinum hætti hægt að búa sig undir það að koma niður á liðið lík. Friðgeir segir lyktina til dæmis lifa sterkt í minningunni, eins litinn á fólkinu. Hann var helblár.

Þeir viðurkenna að verkefnið hafi verið gríðarlega erfitt, andlega og líkamlega, en það hvarflaði eigi að síður ekki að nokkrum manni að gefast upp. Raggi Óla minnist þess að hafa hugsað með sér: „Gerðu þitt besta, drengur! Meira er ekki hægt.“

45 manns voru í húsunum nítján sem flóðið féll á. 25 komust lífs af, 21 bjargaðist af sjálfsdáðum og björgunarmenn grófu fjóra upp úr snjónum. Ein þeirra var Sóley Eiríksdóttir, ellefu ára, og tóku skipverjar á Pétri Jónssyni þátt í því. Einn þeirra, Ingþór Sigurðsson, hélt í höndina á henni meðan hún var losuð upp úr snjónum. Hann treysti sér ekki til að taka þátt í þessu viðtali.

Skipverjar segja björgun Sóleyjar hafa verið mikinn móralskan sigur og gefið mönnum aukakraft við leitina. „Við fundum stúlku á lífi, við fundum stúlku á lífi,“ bergmálaði í hlíðinni. Mannslíf er mannslíf!

Skipverjar gerðu fá hlé á leitinni yfir daginn, komu þó stuttlega í samkomuhúsið, þar sem fólk safnaðist saman, til að nærast og safna kröftum. Þeir segja ástandið þar hafa verið skelfilegt enda beið fólk milli vonar og ótta allan daginn og fram á kvöld. „Það var ofboðsleg depurð og sorg ríkjandi,“ segir Birgir.

„Það var mjög erfitt að koma þarna inn, menn gleyptu bara í sig og fóru út aftur,“ bætir Friðgeir við.

Sjóveikir afleysingamenn

Smám saman bættist í hóp björgunarmanna, lækna og hjúkrunarfræðinga, fyrir atbeina þyrlna Landhelgisgæslunnar og varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Þá voru nokkrir sérþjálfaðir snjóflóðaleitarhundar fluttir á svæðið. Um miðjan daginn kom hópur með skipi frá Patreksfirði.

Klukkan 19:10 var tilkynnt að allir væru fundnir nema litla barnið á Hjallavegi 10.

Varðskipið Ægir lét úr höfn í Reykjavík með ríflega hundrað manns um borð snemma um morguninn og kom til Flateyrar klukkan 19:30. Hálfum öðrum tíma síðar kom annað varðskip, Óðinn, frá Grundarfirði. Afar vont var í sjóinn og fyrir vikið var margt af því fólki sem kom með varðskipunum illa haldið af sjóveiki og ekki í neinu standi til að taka þátt í leitinni strax. Leitarmennirnir að sunnan áttu að leysa hina af hólmi um kvöldið en vegna ástandsins á hópnum sá áhöfnin á Pétri Jónssyni sæng sína uppreidda og hélt aftur út í kófið.

Farsímar höfðu ekki rutt sér til rúms á þessum tíma og fyrir vikið hafði áhöfnin litla möguleika á að láta ástvini sína vita af sér meðan á björgunarstarfinu stóð. „Við náðum að láta vita af okkur um morguninn; að við værum á leið til Flateyrar til að taka þátt í leitinni. Síðan kom tuttugu tíma myrkur, þar sem okkar nánustu heyrðu ekki orð frá okkur. Það var ekki auðvelt,“ segir Ólafur.

Lyfjaglasið hvarf

Áhöfnin segir Pétur Stefánsson skipstjóra hafa sýnt á sér nýja hlið þegar hann tók á móti sínum mönnum um kvöldið. Aðgát var höfð. Þeim hafði að læknisráði verið úthlutað róandi lyfi áður en þeir fóru um borð og fékk hver áhafnarmeðlimur sína töfluna fyrir svefninn. Lyfjaglasið sást á hinn bóginn ekki meir enda leist skipstjóranum ekki á að hafa áhöfnina undir áhrifum róandi lyfja við veiðarnar. Áhöfnin hvíldist um nóttina – enda þótt engum kæmi dúr á auga eftir viðburði dagsins. Morguninn eftir lagði Pétur Jónsson RE af stað í þriggja vikna rækjuveiðitúr.

„Eftir á að hyggja var sú ákvörðun auðvitað galin. Í dag hefði þessi áhöfn aldrei fengið að fara á sjó. En þetta voru aðrir tímar,“ segir Ólafur.

Björgunarsveitarmenn höfðu ráðlagt áfallahjálp en ekki varð af því áður en skipið lét úr höfn. Enda í mörg horn að líta fyrir fagmenn á því sviði á Flateyri. Mórallinn var að vonum þungur í túrnum en mokveiði létti mönnum lífið. Áhöfnin sökkti sér í vinnu. „Ég man ekki betur en þetta hafi verið mettúr,“ segir Birgir.

„Þegar leið á túrinn fann maður að þessi mikla lífsreynsla var farin að hafa veruleg áhrif á menn, sérstaklega strákana sem áttu konu og börn,“ segir Pétur Blöndal. „Við gerðum okkur enga grein fyrir því sem hafði gerst fyrr en löngu síðar.“

Ólafur segir það hafa verið mjög undarlegt að vera úti á rúmsjó næstu þrjár vikurnar, utan þjónustusvæðis, meðan öll þjóðin syrgði. „Það var mjög erfitt fyrir okkur að fá ekki að syrgja með þjóðinni.“

Ennþá að bíða

Þegar Pétur Jónsson kom í land í Reykjavík þremur vikum síðar bjóst áhöfnin fastlega við að rætt yrði við hana um það sem gerst hafði á Flateyri – en enginn kom. „Við erum eiginlega ennþá að bíða. Það hefur enginn rætt þetta við okkur, hvorki fyrr né síðar. Það er eins og við höfum aldrei verið þarna,“ segir Ólafur.

Ekki nóg með það, áhafnarinnar á Pétri Jónssyni hefur hvergi verið getið í þessu sambandi, fyrir utan þetta eina viðtal sem sagt var frá hér í upphafi „Ég hef skoðað þetta mjög vandlega og hvergi annars staðar séð á okkur minnst. Hvorki í fjölmiðlum né skýrslum sem gerðar hafa verið um snjóflóðið,“ segir Birgir.

Þeir segjast hvorki vera á höttunum eftir þakklæti né viðurkenningu en mikilvægt sé eigi að síður að fram komi að þeir hafi verið á staðnum. „Snjóflóðið á Flateyri er partur af Íslandssögunni og sú saga þarf að vera rétt,“ segir Raggi Óla. „Þess vegna fannst okkur nauðsynlegt að koma í þetta viðtal.“

Kristján minnir á að áhöfnin hafi lagt sig í hættu, bæði með því að sigla til Flateyrar og eins við leitina, meðan snjóflóðahætta var enn fyrir hendi. „Þetta þarf fólk að vita.“

Friðgeir hittir líklega naglann á höfuðið: „Við erum eins og umslag sem dottið hefur bak við skúffu.“

Þeir þagna.

Ólafur segir áhöfnina aldrei hafa gert þetta mál upp en þeir hafa aldrei hist svona margir til að ræða það. „Þetta er stórt skref í átt að uppgjöri. Við höfum allir þörf fyrir að loka þessu máli með einum eða öðrum hætti. Það er hollt og gott fyrir okkur að hittast og ræða þetta.“

Af hverju verður þú alltaf svona skrýtinn?

Kristján kveðst sjaldan ræða flóðið og hafði til að mynda ekki minnst á þátt sinn í leitarstarfinu við núverandi eiginkonu sína þegar hún spurði einn daginn: „Kristján minn, af hverju verður þú alltaf svona skrýtinn þegar talað er um snjóflóð?“

Þeir segjast allir hugsa mikið um þessa óvenjulegu og þungu lífsreynslu. „Maður losnar aldrei við þetta,“ segir Friðgeir og Raggi Óla bætir við að minningarnar blossi óhjákvæmilega upp þegar flóðsins er minnst, eins og í síðasta mánuði þegar tuttugu ár voru liðin.

Ólafur segir þetta lífsreynslu sem allir myndu vilja vera án en úr því þetta gerðist búi þeir að því alla tíð. Þegar þeir sjálfir eigi í erfiðleikum hugsi þeir gjarnan til fólksins á Flateyri; þeirra sem dóu og þeirra sem misstu ástvini sína í hamförunum. „Í þeim samanburði eru hversdagsleg vandamál ansi fátækleg.“

Friðgeir, Kristján og Pétur hafa komið til Flateyrar eftir þennan örlagaríka dag en ekki hinir þrír. Þeir segjast mega til með að gera það og taka fjölskyldur sínar með sér. Ólafur stingur upp á því að þeir fari sem flestir saman, styrkur væri í því. Þá leggur hann til að sem flestir úr áhöfninni á Pétri Jónssyni RE komi framvegis saman 26. október ár hvert, eða einhvern dag í kringum þá dagsetningu, drekki saman kaffi og ræði málin. „Það getur gert mönnum gott,“ segir hann. „Við verðum að vinna úr þessari reynslu eins lengi og við lifum!“

Áhöfnin á Pétri Jónssyni RE-69

Aðalsteinn Ólafsson

Andrés Magnússon

Benedikt Aðalsteinsson

Einar Sturluson

Erlingur Birgir Kjartansson

Friðgeir Bjarkason

Gunnar Stefánsson

Kristján Sigurður Pétursson

Ingþór Sigurðsson

Jósef Matthíasson

Magnús Þórarinn Öfjörð

Ólafur William Hand

Pétur Blöndal

Pétur Stefánsson

Ragnar Þór Ólason

Rúnar Jónsson

Sigurður Þórsson

Steingrímur E. Felixson

Viðar Gíslason

Þorsteinn Jónsson

Sóley Eiríksdóttir heilsar Ingþóri Sigurðssyni sem hélt í höndina á …
Sóley Eiríksdóttir heilsar Ingþóri Sigurðssyni sem hélt í höndina á henni meðan hún var grafin upp úr flóðinu. mbl.is/RAX

„Allir mjög þakklátir fyrir að fá að hitta þig“

Meðan á viðtalinu við skipverjana á Pétri Jónssyni RE stóð vaknaði sú hugmynd að þeir myndu hitta Sóleyju Eiríksdóttur, sem þeir tóku þátt í að bjarga úr flóðinu. Sunnudagsblað Morgunblaðsins hafði í framhaldinu samband við Sóleyju sem tók beiðni blaðsins afar vel. „Að sjálfsögðu er ég tilbúin að hitta þessa menn,“ sagði hún.

Auk sexmenninganna sem komu í viðtalið mættu Sigurður Þórsson og Ingþór Sigurðsson til fundarins í Norræna húsinu en sá síðarnefndi hélt í höndina á Sóleyju meðan verið var að losa hana úr rústunum.

Það var tilfinningaþrungin stund þegar Sóley faðmaði skipverjana að sér, einn af öðrum. „Takk fyrir að gefa mér tækifæri til að hitta ykkur,“ sagði hún en með í för var sex ára dóttir Sóleyjar, Vilborg Saga Stefánsdóttir.

„Þetta gerir hlutina mjög raunverulega og færir okkur ennþá nær þessum atburðum,“ segir Ólafur William Hand þegar hópurinn hefur sest niður með Sóleyju yfir kaffibolla. „Við erum allir mjög þakklátir fyrir að fá að hitta þig.“

Sóley upplýsir að hún hafi allt frá upphafi vitað að skipverjar á Pétri Jónssyni tóku þátt í leitinni en hitt vissi hún ekki, að þeir hefðu komið beint að því að finna hana.

„Við vorum allir tuttugu árum yngri þá – og betur á okkur komnir,“ segir Ólafur.

Þau hlæja.

Sóley Eiríksdóttir daginn eftir flóðið ásamt foreldrum sínum og bróður.
Sóley Eiríksdóttir daginn eftir flóðið ásamt foreldrum sínum og bróður. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Var lífhrædd lengi á eftir

Þessi erfiða lífsreynsla hafði að vonum djúpstæð áhrif á Sóleyju en auk þess að týnast sjálf missti hún systur sína, Svönu, í flóðinu. „Þetta lá mjög þungt á mér. Ég var mjög lífhrædd lengi á eftir og bjóst við að deyja ung,“ segir hún áhöfninni. „Ég var frekar ráðvilltur unglingur en eftir því sem frá leið gekk mér betur að vinna úr þessu. Mér líður mjög vel í dag.“

Hún segir margt hafa breyst þegar hún eignaðist dóttur, Margréti Nótt, með eiginmanni sínum, Stefáni Reynissyni, fyrir tíu árum. Þau eiga nú þrjár dætur, Vilborg Saga er sex ára og Elísa Dögun eins og hálfs. „Í dag hugsa ég allt öðruvísi. Horfi bara fram á veginn,“ segir Sóley sem er sagnfræðingur að mennt.

Hún segir mikilvægt að tala um lífsreynslu af þessu tagi. „Það hjálpaði mér heilmikið og það er frábært að þið séuð farnir að hittast til að vinna úr þessu saman. Fólk þarf að tala sig út úr svona lífsreynslu.“

Skipverjar segjast oft hafa hugsað til Sóleyjar og velt fyrir sér hvað hafi orðið um hana. Það gleður þá því að vonum innilega að henni hafi gengið vel að vinna úr reynslu sinni og fundið fjölina sína í lífinu.

Mæðgurnar Sóley Eiríksdóttir og Vilborg Saga Stefánsdóttir ásamt skipverjum á …
Mæðgurnar Sóley Eiríksdóttir og Vilborg Saga Stefánsdóttir ásamt skipverjum á Pétri Jónssyni. F.v.: Kristján Sigurður Pétursson, Ingþór Sigurðsson, Pétur Blöndal, Friðgeir Bjarkason, Ragnar Þór Ólason, Ólafur William Hand, Erlingur Birgir Kjartansson og Sigurður Þórsson. mbl.is/RAX

Sóley flutti á höfuðborgarsvæðið ásamt foreldrum sínum eftir flóðið og fer ekki oft vestur. „Ég hef stundum farið á sumrin en annars á ég ekki margt fólk eftir á Flateyri. En staðurinn er alltaf jafnfallegur og á vísan stað í hjartanu. Pabbi er fæddur þar og uppalinn.“

Snjóflóðið á Flateyri er og verður alltaf partur af Sóleyju Eiríksdóttur og það vita allir í kringum hana, líka eldri dætur hennar. Vilborg Saga skilur ekki mikið í því ennþá en Margrét Nótt hefur, að sögn móður hennar, velt þessu talsvert fyrir sér enda nálgast hún nú þann aldur sem Sóley var á þegar flóðið féll.

BA-ritgerð Sóleyjar í sagnfræði við Háskóla Íslands fjallaði um snjóflóðið og hún vinnur nú að bók um atburðinn, þar sem fjallað verður bæði um hennar eigin reynslu og annarra Flateyringa. Fyrirhuguð útgáfa er á næsta ári.

Viss um að henni yrði bjargað

Sóley Eiríksdóttir sagðist í samtali við Morgunblaðið, daginn eftir að flóðið féll, hafa verið viss um allan tímann að henni yrði bjargað. Henni hefði þó brugðið þegar leitarmaðurinn sem kom fyrstur á vettvang hélt aftur á braut.

„Ég var orðin svolítið hrædd en síðan heyrði ég einhver læti í herberginu við hliðina á mínu og gerði mér grein fyrir að margir menn væru komnir þangað inn,“ sagði hún í samtali við Sindra Freysson blaðamann. „Ég róaðist mikið þegar ég vissi að þeir voru nálægt. Þeir ætluðu að brjóta vegginn á milli herbergjanna en byrjuðu of ofarlega, þannig að ég varð að lyfta höfðinu upp til að sjá þá. Þá hrundi snjór ofan á mig. Hann er kallaður Stebbi Dan [Stefán Daníelsson] sem fann mig og spurði hvað ég héti og hvað ég væri gömul. Ég svaraði og sagði að mér liði ágætlega. Vinstri höndin var þó orðin ísköld og máttlaus þannig að ég gat ekki hreyft hana. Ég var líka öll skorin, sennilega eftir glerbrotin úr rúðunni, en ég fann ekki fyrir rispunum og skrámunum þá og brosti bara þegar þeir komu. Þá var ég viss um að allt væri í lagi.

Síðan skriðu þeir inn um gatið og grófu sér leið gegnum gluggann. Húsið var komið í algjörar tætlur, en ég lá þannig að þeir þurftu að saga í sundur kassann sem skorðaði mig fasta.

Kassinn var fullur af snjó svo að þeir gátu ekki hreyft hann og urðu að toga mig upp á höndunum. Það var mjög óþægilegt, en ég gat hjálpað þeim aðeins með því að sparka með fótunum. Það var voðalega gott að losna. Ég gat ekki hreyft mig mikið vegna kuldans enda beið ég allan tímann bara í nærbuxum og bol og lá ofan á sænginni og snjónum.“

Sóley sagði að sér hefði sýnst herbergið sitt furðu heillegt, t.d. hefði skrifborðið hennar verið óbrotið. Hún var flutt í mötuneyti Kambs þar sem læknar tóku við og hlúðu að henni. „Þegar ég var komin í mötuneytið spurði ég hvort þeir hefðu fundið Svönu, en þeir vissu ekkert um hana. Ég lýsti herberginu hennar og þeir fóru fljótlega af stað til að athuga það.“

Svana, systir Sóleyjar, lést í flóðinu. Hún var nítján ára.

Leitaði að tengdaföður sínum

Einn skipverja á Pétri Jónssyni RE-69 hafði tengsl við Flateyri. Það var Friðgeir Bjarkason en tengdaforeldrar hans bjuggu í þorpinu.

„Ég vissi að tengdafaðir minn, Þórður Júlíusson, var heima en tengdamóðir mín var fyrir sunnan. Sonur minn þurfti að fara í aðgerð á Landspítalanum daginn eftir og konan mín suðaði í mömmu sinni að koma með sér. Hún lét það eftir henni og var fyrir vikið að heiman þessa örlagaríku nótt,“ segir Friðgeir.

Fljótlega kom í ljós að Þórðar var saknað. Friðgeir brá hins vegar á það ráð að segja engum frá tengslum þeirra en „þá hefði ég ekki fengið að taka þátt í leitinni“.

Þórður fannst látinn eftir hádegi. Friðgeir kom ekki að því að grafa hann upp úr flóðinu. „Sem betur fer.“ Hann fékk staðfestingu á andláti tengdaföður síns með þeim hætti að lík var borið framhjá honum á börum og í þann mund fauk teppi ofan af andlitinu. Það var Þórður.

„Hefði tengdamóðir mín ekki verið fyrir sunnan með eiginkonu minni og syni hefði hún farið líka,“ segir hann.

Friðgeir varð að vonum eftir í landi og hélt suður til Reykjavíkur. „Það var erfiðasta augnablik lífs míns þegar komið var með líkin suður,“ rifjar hann upp.

Tengdamóðir Friðgeirs, Ragnheiður Erla Hauksdóttir, kunni honum og áhöfninni allri bestu þakkir fyrir framlag sitt til leitarinnar og færði þeim síðar þakklætisvott, platta sem hengdur var upp í skipinu. „Ég veit að Pétri skipstjóra þótti mikið til þess koma,“ segir Friðgeir en þetta eru til þessa dags einu viðbrögðin sem áhöfnin hefur fengið vegna þátttöku sinnar í hjálparstarfinu.

Tengdamóðir Friðgeirs jafnaði sig aldrei á áfallinu og lést sex árum síðar.

Friðgeir og eiginkona hans, Ingibjörg, voru á þessum tíma að reyna að eignast barn en gekk illa. Tveimur árum eftir að snjóflóðið féll upp á stund, rúmlega fjögur aðfaranótt 26. október 1997, eignuðust þau á hinn bóginn dóttur sem hlaut nafnið Tara Líf. „Konan mín er ekki í neinum vafa um að pabbi hennar hafi kippt þarna í spotta.“

Sóley faðmar einn skipverja, Ragnar Þór Ólason.
Sóley faðmar einn skipverja, Ragnar Þór Ólason.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert