„Ættu að vera miklu fleiri greinar“

Hrafn Malmquist hefur verið virkur notandi á hinum íslenska hluta …
Hrafn Malmquist hefur verið virkur notandi á hinum íslenska hluta Wikipediu síðan 2006. mbl.is/Ómar

40.000. greinin var skrifuð á íslensku útgáfunni af Wikipediu í gær, á degi íslenskrar tungu. Fjallar greinin um nýútkomna bók Auðar Jónsdóttur, Stóra skjálfta.

Hrafn Malmquist, formaður Félags Wikimedianotenda á Íslandi, segir í samtali við mbl.is að í raun hafi væntingar staðið til að þessum fjölda yrði náð fyrr. „Það ættu að vera miklu fleiri greinar en eru núna. Ef vaxtarhraði alfræðiorðabókarinnar er skoðaður þá sést að það hefur heldur dregið úr honum á síðari árum.“

Hrafn segir að erfitt sé þó að bera stærð íslensku útgáfunnar við erlendar útgáfur. „Danir eru til að mynda með rúmlega 200 þúsund greinar. Á sama tíma hafa Svíar skrifað rúmlega tvær milljón greinar.

Ef íslenska Wikipedia hefði haldið áfram að vaxa á sama hraða og hún gerði í fyrstu þá væri hún stærri sem nemur nokkrum tugum þúsunda greina.“ Eðlilegt sé þó að alfræðiorðabækur sem þessar vaxi hratt í byrjun áður en draga fer úr vextinum.

„Það eina sem hægt er að fullyrða með vissu er að við getum gert betur.“

Félag Wikimedianotenda er rúmlega ársgamalt félag, opið öllum sem vilja taka þátt í að byggja upp frjálsa þekkingu í verkefnum Wikimedia. Næstkomandi laugardag, 21. nóvember, verður námskeið haldið á vegum félagsins þar sem útskýrt verður hvernig hægt er að taka þátt í uppbyggingu Wikipediu.

Sjá nánari upplýsingar á Facebook-vefnum Vinir Wikipediu.

Wikipedia er til á mörg hundruð tungumálum, þar á meðal …
Wikipedia er til á mörg hundruð tungumálum, þar á meðal íslensku, stækkar stöðugt og er einhver vinsælasti vefur í heimi. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert