Ásakanir um milljarða vinagreiða

Magnús Pálmi Örnólfsson, bar vitni í dómsal í dag. Beindi …
Magnús Pálmi Örnólfsson, bar vitni í dómsal í dag. Beindi hann spjótum að yfirmanni sínum, en lögmaður hans ásakaði Magnús með spurningum sínum um marg milljarða millifærslu frá félaginu Stím til vina sinna. mbl.is/Árni Sæberg

Magnús Pálmi Örnólfsson, vitni í Stím-málinu og fyrrverandi yfirmaður eigin viðskipta Glitnis, var í dag ítrekað spurður af verjanda í málinu hvort félagið Stím hafi verið notað til að geyma samninga sem aðrir áttu að hagnast á, eða til að færa yfir á tap vildarviðskiptavina Magnúsar í bankanum, sem í einhverjum eða öllum tilfellum voru einnig eigendur að Stím.

Kallar viðskiptin furðusamninga

Reimar Pétursson, einn verjanda í málinu, sótti hart að honum þar sem undirliggjandi voru marg milljarða gjaldmiðlasamningar sem verjandinn kallaði „furðusamninga“ og gaf í skyn að Magnús hefði flutt mikinn hagnað Stíms yfir á viðkomandi aðila og í staðinn fengið lánafyrirgreiðslu sem ekki væri ætlunin að greiða til baka.

Eins og frá var greint í frétt mbl.is í dag fékk Magnús friðhelgi í málinu með ákvörðun saksóknara eftir að hann steig fram með upplýsingar sem saksóknari hefur væntanlega talið uppfylla 5. grein laga um sérstakan saksóknara þar sem meðal annars er greint á um að miklar líkur séu á sakfellingu með upplýsingunum. Yfirmaður hans var aftur á móti ákærður í þriðja hluta ákærunnar í málinu.

Magnús beindi spjótunum að Jóhannesi

Þegar saksóknari spurði Magnús spjörunum úr beindust spjótin að yfirmanni hans, Jóhannesi Baldurssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra markaðsviðskipta Glitnis. Sagði Magnús að samningur um kaup á skuldabréfi útgefnu af félaginu Stím væri slæm hugmynd og að hann hafi forðast að kaupa það fyrir sjóðinn GLB FX sem hann stýrði hjá Glitni. Aftur á móti hafi hann orðið fyrir þrýstingi frá Jóhannesi um kaupin og því látið undan.

Málið tók allt aðra stefnu með spurningum verjanda

Seinna þegar kom að Reimari, verjanda Jóhannesar, fór málið aftur á móti að taka allt aðra stefnu. Byrjaði Reimar að spyrja Magnús út í nokkra af eigendum Stíms sem kom í ljós að væru frá Ísafirði eða Bolungarvík, en Magnús sjálfur er Bolvíkingur. Staðfesti hann að meðal annars væru Ástmar Ingvarsson, Jakob Valgeir Flosason og Gunnar Torfason miklir félagar hans frá því að hann var yngri. Þeir hafi meðal annars verið meðal viðskiptavina hans hjá Glitni og að eftir að hann hætti hjá Glitni í nóvember 2008 hafi þeir haldið viðskiptum áfram.

Jóhannes Baldursson og verjandi hans Reimar Pétursson.
Jóhannes Baldursson og verjandi hans Reimar Pétursson. Eggert Jóhannesson

Reimar spurði þá hvort hann teldi þau viðskiptasambönd, bæði í nútíð og þátíð, hafa verið á eðlilegum forsendum. „Já auðvitað,“ svaraði Magnús þeirri spurningu. Rakti Reimar þá viðskipti Magnúsar með félagið Storm capital, en það er í eigu félagsins Meritzi ltd sem er skráð á Kýpur. Er það félag í eigu Magnúsar og fyrrum samstarfsfélaga hans.

Tugmilljóna tap vegna veðmálastarfsemi og afskrift þrátt fyrir innistæðu

Reimar varpaði upp ársreikningum Storms þar sem meðal annars kom fram lán frá félaginu Króksnesi ehf. sem er í eigu fyrrnefnds Gunnars. Lánið var upp á 136 milljónir og var að sögn Magnúsar ætlunin að fara í gjaldeyrisviðskipti. Höftin og lagasetning kringum þau hafi þó seinna stoppað það. Sagði hann að félagið hafi síðan að mestu legið í dvala, en hann hafi heilt yfir fengið um 5 milljóna launagreiðslur frá því.

Móðurfélagið Mertizi fékk svo aftur á móti svipaða upphæð, eða 136 milljónir lánaðar frá Stormi og fór Reimar yfir það þegar félagið tapaði árin 2011 til 2013 tugum milljóna samtals vegna veðmálastarfsemi (e. betting activities). „Það hefur ekkert komið til álita að endurgreiða lánið,“ spurði Reimar í staðin fyrir að stunda ítrekaða veðmálastarfsemi sem virtist gefa illa. Svaraði Magnús því til að gott væri að vera vitur eftir á. Hvorki lánið frá Króksnesi né Stormi hafa verið endurgreidd eftir því sem fram kom í dómsal og afskrifaði Stormur lánið á Mertizi, þrátt fyrir að innistæða í félaginu væri um 187 þúsund evrur í árslok 2013.

Talsverður hiti var þarna kominn í menn og sagði Magnús þegar Reimar benti á þessa staðreynd að honum væri frjálst að stunda þau viðskipti sem hann vildi. Þá væri um að ræða opinber gögn og allt samkvæmt ráðgjöf frá KPMG endurskoðendafyrirtækinu.

Reimar hélt þó áfram og spurði Magnús beint hvort að lánveitingin hafi ekki verið greiði frá Gunnari fyrir að bjarga sér úr erfiðri stöðu í hruninu og átti þar við Stím-viðskiptin. Magnús svaraði því með hörðu nei-i.

Segir fjármuni Stím hafa farið til „vildarviðskiptavina“ Magnúsar

Næst fór verjandinn yfir yfirlit frá Stími þar sem kom fram uppgjör á gjaldmiðlasamningum sjóðsins. Hafði Magnús verið með félagið í skuldstýringu. Reimar fór þar yfir fjölda samninga sem voru margir eða allir við eigendur Stíms. Spurði hann út í uppgjörsgengi samninganna, en oft var um að ræða talsvert yfir- eða undirverð eftir því hvort var um að ræða kaup eða sölu á gjaldmiðlum. Sagði hann stefnu fjármunanna þó alltaf hafa verið í átt frá Stím til „vildarviðskiptavina“ Magnúsar sem hefðu verið nefndir áður.

Ásamt Jóhannesi eru þeir Lárus Welding og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, …
Ásamt Jóhannesi eru þeir Lárus Welding og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, fyrrum forstjórar Glitnis og Saga Capital, ákærðir fyrir umboðssvik og hlutdeild í umboðssvikum. Eggert Jóhannesson

Magnús svaraði því aftur á móti til að það hefði verið almennt vinnulag í deildinni og jafnvel ýtt undir það af áhættustýringu, að samningar með gjaldmiðla væru gerðir upp saman og meðalgengi þeirra fengið. Reimar sagði þá að sá munur sem um væri að ræða, oft á tíðum kringum 15%, væri nokkuð mikil sveifla þó um væri að ræða tímabil sem næði yfir nokkra daga.

„Varstu að kaupa skuldabréfið til að styðja við þessa menn“

Ýjaði Reimar í spurningum sínum og framsetningu að því að Magnús hefði með þessu móti nýtt mikinn hagnað sem Stím hafi fengið með gjaldeyrisviðskiptum og stöðutökum og deilt út á valda viðskiptavini. Þannig hafi verið farið á mis við 9,7 milljarða inneign sem félagið hafi átt að vera með.  „Varstu að kaupa [Stím] skuldabréfið til að styðja við þessa menn,“ spurði Reimar Magnús sem svaraði neitandi.

Þrátt fyrir neitanir Magnúsar hélt Reimar áfram og spurði Magnús m.a. hvort að lánafyrirgreiðslan sem hann hafði fengið hafi verið til að greiða honum fyrir áðurgengna greiða. Aftur neitaði Magnús og sagði að það væri allt upp á borðinu í þessum viðskiptum og að meðal annars hafi áhættustýring fylgst með öllu sem hann gerði í gjaldeyrisviðskiptunum.

Að lokum sýndi Reimar annan ársreikning frá félagi í eigu Magnúsar. Í þetta skiptið var það Túnfljót ehf, en samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2014 hafði það fengið lán frá Hrafna-Flóka ehf upp á 380 milljónir, en Hrafna-Flóki er einnig í eigu fyrrnefnds Gunnars. „Þó ekki búið að semja um það fyrirfram að þetta verði ekki endurgreitt?“ spurði Reimar og fékk eins og í fyrri skiptin neitun frá Magnúsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert