Þorsteinn Már með stöðu sakbornings

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. mbl.is/Skapti

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er með stöðu sakbornings í máli sem er til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara. Þetta kom fram í vitnaleiðslu í Stím-málinu fyrir héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Þorsteinn bar vitni í málinu þar sem Samherji hafði verið áætlaður hluthafi í félaginu Stím á sínum tíma, þótt félagið hafi síðar dregið sig úr þeirri fjárfestingu.

Vitnaleiðslan fór fram í gegnum síma, en þegar Símon Sigvaldason, dómsformaður, kynnti Þorsteini réttindi sín tók hann fram að samkvæmt upplýsingum sínum hefði hann réttarstöðu sakbornings í öðru máli sem væri til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara.

Samherji var lengi til rannsóknar hjá Seðlabankanum vegna gruns um brot gegn lögum um gjaldeyrishöft. Sérstakur saksóknari felldi málið aftur á móti niður fyrr í haust

Samkvæmt upplýsingum mbl.is var dómari að vísa til rannsóknar sérstaks saksóknara á máli sem tengist falli Glitnis, en Þorsteinn Már var stjórnarformaður bankans frá febrúar 2008 til október sama árs. Tekið skal fram að engin ákæra hafi verið gefin út í umræddu máli sem er enn til meðferðar hjá embættinu, en Þorsteinn er með stöðu sakbornings á meðan.

Við yfirheyrslu saksóknara var hann nokkrum sinnum spurður um mál sem tengjast Stím, til dæmis um hver hefði hringt í hann á árunum 2007 og 2008. Sagði Þorsteinn að  þetta væru atriði sem hefðu gerst fyrir meira en 8 árum síðan og hann gæti með engu móti munað svona smáatriði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert