Greiða tekjuskatt af sóknargjaldi

Zúistar vilja skila félagsmönnum sínum ríkisstyrk sem trúfélagið fær á …
Zúistar vilja skila félagsmönnum sínum ríkisstyrk sem trúfélagið fær á grundvelli meðlimafjölda síns. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ef trúfélagið Zúistar á Íslandi greiðir ríkisstyrk sinn út til félagsmanna sinna þurfa þeir að greiða tekjuskatt af fénu, að sögn ríkisskattstjóra. Zúistar vilja afnema ríkisstyrki til trúfélaga í formi svonefndra sóknargjalda og að ríkið hætti að halda gagnagrunn um trúarskoðanir landsmanna.

Á vefsíðu trúfélagsins Zúistar á Ísland segir að þeir sem skrái sig í félagið, 16 ára og eldri, geti fengið fjárstyrk ríkisins til trú- og lífsskoðunarfélaga endurgreiddan en sá styrkur hefur verið nefndur sóknargjöld. Samkvæmt drögum að fjárlagafrumvarpi næsta árs nemur styrkurinn 10.800 krónum yfir árið. Félagið muni endurgreiða félagsmönnum sínum styrkinn í tveimur hlutum á ári að frádregnum hóflegum umsýslukostnaði.

Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, segir að ef félag afhendi greiðslur til félagsmanna sinna beri að líta á það sem tekjur. Fjárhæðin bætist því ofan á árstekjur einstaklings og verður hluti af grundvelli tekjuskatts hans.

Zúistar taka fram á vefsíðu sinni að félagar þurfi að greiða skatt af styrknum nema þeir sem séu með tekjur undir skattleysismörkum.

Félagið þarf hins vegar ekki að greiða skatt af styrknum sem það fær frá ríkinu enda þurfa trú- og lífsskoðunarfélög ekki að greiða tekjuskatt af hagnaði sínum.

Trúfélögin innheimti sín eigin félagsgjöld

Hart hefur verið deilt um eðli svonefndra sóknargjalda. Fulltrúar þjóðkirkjunnar hafa haldið því fram að um félagsgjald sé að ræða sem ríkið sjái um að innheimta með tekjuskatti fyrir hönd hennar og annarra trú- og lífsskoðunarfélaga. Aðrir hafa bent á að sé það rétt greiði þeir sem standi utan trú- og lífsskoðunarfélaga hærri skatt en þeir sem þeim tilheyra. Í raun sé um beinan fjárstyrk að ræða frá ríkinu.

Stjórn Zúista lýsir sig andsnúna því að ríkið úthluti árlegum styrk til trú- og lífsskoðunarfélaga og bendir á að Fjármálaráðuneytið hafi staðfesti á Alþingi 2014 að um styrk sé að ræða en ekki félagsgjald.

„Ef ríkið kýs að greiða slíka styrki fyrir hönd landsmanna þá ættu einstaklingar að geta ráðstafað styrknum til hvaða félags sem þeir kjósa. Það val ætti ekki að takmarkast við opinber trú- eða lífsskoðunarfélög. Eðlilegast væri þó að afnema ríkisstyrki í formi sóknargjalda þannig að trú- og lífsskoðunarfélög myndu einfaldlega innheimta eigin félagsgjöld,“ segir á vefsíðunni.

Vefsíða Zúista á Íslandi

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert