Lögreglan lét „hafa sig að fífli“

Jóhannes Baldursson.
Jóhannes Baldursson. Eggert Jóhannesson

Jóhannes Baldursson, fyrr­um fram­kvæmda­stjóri markaðsviðskipta Glitn­is, segir að hann sé hafður fyrir rangri sök í Stím-málinu og að aðkoma hans að málinu hafi aðeins verið að bera boð á milli kaup- og seljanda eins og hver annar miðlari. Skýrslutaka af honum er síðasti liður aðalmeðferðar áður en málflutningur verjenda hefst eftir helgi. Jóhannes gagnrýndi einnig embætti sérstaks saksóknara harðlega í ávarpi sínu og taldi hann dómstóla hafa brugðist sér þegar kom að úrskurðum um afhendingu gagna. Í ávarpinu fór hann yfir málið í heild eins og það lítur út fyrir honum.

Jóhannes er ákærður í málinu fyrir umboðssvik í tengslum við kaup sjóðsins GLB FX, sem var í eigu sjóða Glitnis, á skuldabréfi útgefnu af félaginu Stím, en bréfið var áður í eigu Sögu Capital. Samstarfsmaður Jóhannesar, Magnús Pálmi Örnólfsson, stýrði þeim sjóði, en samkvæmt ákæru og framburði Magnúsar beitti Jóhannes hann þrýstingi og skipunum til að kaupa bréfið.

Ekki í stöðu til að skipa Magnúsi fyrir

Jóhannes vísaði því alfarið á bug og sagði að hann hafi ekki verið í neinni stöðu til að segja Magnúsi fyrir verkum, enda hafi hann verið yfirmaður sinnar einingar og aðeins stjórn sjóða Glitnis geta sagt honum hvað hann ætti að gera.

Jóhannes fór hörðum höndum um verklag sérstaks saksóknara við rannsókn málsins og sagði að það hafi verið „afdráttarlaus viðleitni lögreglu að gera“ sér málið erfitt fyrir vörnina. „Það er erfitt að upplifa að valdastofnanir sameinist að gera manni erfitt fyrir að sýna fram á sakleysi sitt,“ sagði Jóhannes, en þar vísaði hann til þess að afrit af símtölum sem hann og verjandi sinn töldu geta sýnt fram á sakleysi sitt hafi verið eytt án þess að hann hafi getað hlustað á þau. „Ég er gríðarlega hugsi yfir þessu,“ sagði Jóhannes um þessa stöðu.

Sagði hann að meðal annars hafi verjendur í málinu hafi náð að fá aðgang að gögnum þar sem Magnús Pálmi ræddi um kaup títtnefnds skuldabréfs, en erfitt hafi verið að fá aðgang að þeim. Þá fékkst ekki aðgangur að öðrum skjölum fyrr en rétt fyrir aðalmeðferð sem Jóhannes sagði ástæðu þess að hann hafi viljað bíða með að gefa skýrslu þangað til í lokin. Hafi hann viljað kynna sér gögnin fyrst.

„Kaupa framburð“

Þá gagnrýndi hann harðlega ákvörðun saksóknara um að „kaupa framburð“ Magnúsar Pálma sem hann sagði ekki geta staðist. Það hafi meðal annars sést við vitnaleiðslur þegar framburður Magnúsar Pálma og lögreglunnar stangaðist á í málinu.

Sagði Jóhannes að Magnús Pálmi hafi sjálfur sagt að hann hafi verið kominn upp að vegg og að hann hafi nýtt sér það að hafa vitað hvað lögreglan vildi heyra í málinu. „Hann seldi þeim því frásögnina sem lögreglan virðist hafa veitt af sjálfumgleði þess sem efast ekki um eigin sjálfgefnu hugmyndir. Þetta vitni hafði samt ýmislegt að fela eins og gjaldeyrisviðskipti og var spilað með lögregluna sem lét beinlínis hafa sig að fífli,“ sagði Jóhannes.

Sagði hann að með ákvörðun saksóknara í málinu um friðhelgi fyrir Magnús myndi nú hið sanna kannski aldrei koma í ljós í málinu, þ.e. af hverju Magnús keypti skuldabréfið. Sagði Jóhannes að kannski hafi Magnús keypt bréfið til að koma í veg fyrir að Saga Capital gæti skoðað skuldstýringuna sem hann stýrði, en um hana hafa komið ýmsar ásakanir í réttarhöldunum. Þá hafi Magnús mögulega talið að viðsnúningur væri handan við hornið og viljað tryggja GLB FX góða stöðu í Stím við endurskipulagningu félagsins.

„Þar sem lögreglan kaus að loka augunum kemur kannski aldrei í ljós hvað réði för Magnúsar Pálma,“ sagði Jóhannes að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert