65500 í skatt fyrir að vera á túr

„Hvers vegna er verið að skattleggja á mér legið?“ spurði Heiða Kristín Helgadóttir, þingmaður Bjartrar Framtíðar, á þingi í vikunni en hún vill að virðisaukaskattur á dömubindi og túrtappa verði aflagður. Við hittum hana í Bónus og fórum aðeins yfir kostnaðinn sem fylgir blæðingum.

Heiða Kristín segist nota Natracare vörur sem reyndar séu aðeins í dýrari kantinum en ef miðað er við þær þá má gera ráð fyrir að hún borgi 65.500 krónur bara í skatt af dömubindum ef við gefum okkur að hún fari á blæðingar í 35 ár. Tölurnar eru þó mjög varlega áætlaðar og ætlað að gefa grófa mynd af kostnaðinum.

Hún bendir á að virðisaukaskattur hafi verið lagður af á vörum eins og smokkum og bleyjum til að koma til móts við ungt fólk og barnafjölskyldur. „Ég skil ekki alveg ef að það er hugsunin að koma ungum barnafjölskyldum til góða með þessum breytingum afhverju dömubindin voru skilin eftir.“

Fjárlögin sem lögð voru fram haustið 2013 urðu víða þekkt sem „bleyjufjárlögin“, það er þá kannski möguleiki á að „dömubindafjárlögin“ verði lögð fram í framtíðinni og hugsanlega „rakvélablaðafjárlögin“ seinna meir svo jafnræðis sé gætt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert