Vill láta reka Bigga löggu

Sveinn Andri Sveinsson.
Sveinn Andri Sveinsson. Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Sveinn Andri Sveinsson, verjandi eins þeirra sem sýknaður var af hópnauðgun í Breiðholti á síðasta ári, vill að Birgir Örn Guðjónsson, betur þekktur sem Biggi lögga, verði rekinn. Deildi hann færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann gagnrýndi sakborningana fimm harðlega. Ætlar Sveinn Andri að senda lögreglustjóra formlegt erindi vegna málsins.

Hér má sjá brot úr færslu Birgis Arnar:

„Þó svo að réttarkerfið nái ekki utan um brot ykkar þá gerir samfélagið það. Ég þekki ykkur ekki og ekki heldur stúlkuna og ég veit ekki nákvæma málavexti. Ég þarf þess heldur ekki. Það sem ég veit er að þið notuðuð líkama sextán ára ölvaðrar stúlku. Þið skiptust á að ríða henni og tókuð það upp á myndband. Hvað voruð þið að hugsa? Sama hver aðdragandinn var eða hver sagði hvað að þá áttuð þið alltaf að vita að þetta væri svo kolrangt. Þó svo að dómstóll hafi sýknað ykkur þá þurfið þið að lifa við þennan verknað ykkar. Samfélagið hefur dæmt ykkur seka.“

Sveinn Andri segir á Facebook-síðu sinni að Birgir hafi „á opinberum vettvangi, þar sem hann kennir sig við lögregluna“, sagt sakborningana vera nauðgara.

„Lögreglumenn sem ég hef rætt við eru rasandi og segja „Bigga löggu" brjóta gegn grundvallarreglum sem menn eiga að tileinka sér eftir nám í Lögregluskólanum og koma óorði á stéttina. Þessi maður er varðstjóri á Kópavogsstöðinni og því iðulega fyrsti stjórnandi á vettvangi glæps.

Til slíkra verka verður að vera gerð krafa um lágmarks dómgreind og hlutleysi. Ef allt er með felldu hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fær hann uppsagnarbréf afhent í fyrramálið, eða verður settur i gangbrautarvörzlu. Ég mun a.m.k. senda lögreglustjóra formlegt erindi,“ segir í færslu Sveins Andra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert