31,6 milljarða útgjaldaauki

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar.
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar. mbl.is

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis og þingmaður Framsóknarflokksins, gerði áhrif nýgerðra kjarasamninga á ríkissjóð að umræðuefni í Facebook-færslu sem hún ritaði fyrr í dag.

Þar segir Vigdís áhrif kjarasamninga á ríkissjóð árið 2016 nema „útgjaldaauka upp á 31,6 milljarð [króna] undir fjárlagalið 09-989 ófyrirséð útgjöld - launa, gengis og verðlagsbætur.“

Nú eru flestir kjarasamningar komnir í höfn en síðastliðinn föstudag var til að mynda greint frá því að SFR, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar og bæjarstarfsmannafélögin innan BSRB hafi undirritað kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga. Er samningurinn á svipuðum nótum og þeir sem gerðir hafa verið á opinberum vinnumarkaði undanfarið og tekur mið af því ramma­sam­komu­lagi sem aðilar vinnu­markaðar­ins gerðu í októ­ber sl.

Mikil óvissar ríkir hins vegar enn meðal starfsmanna Rio Tinto Alcan á Íslandi því allt stefnir í verkfall starfsmanna álversins í Straumsvík, en það á að hefjast hinn 2. desember næstkomandi. Verði af því er ekki sjálfgefið að kveikt verði aftur á álverinu að sögn talsmanns Rio Tinto Alcan á Íslandi.

Næst verður fundað vegna þeirrar deilu á morgun, þriðjudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert