Fimm bardagar á fjórum dögum

Bjarki Þór eftir sigur.
Bjarki Þór eftir sigur. Af Instagramsíðu Mjölnis

„Mér líður bara ótrúlega vel,“ segir Bjarki Þór Pálsson, sem varð í gær Evrópumeistari í blönduðum bar­dagalist­um (MMA) á Evrópumóti í Englandi, í samtali við mbl.is. Hann fór á mótið ásamt sex öðrum Íslendingum sem æfa í Mjölni og var árangurinn mjög góður. Ásamt Bjarka varð Sunna Rann­veig Davíðsdótt­ir Evrópumeistari í sínum flokki og Pétur Jóhannes Óskarsson fékk bronsverðlaun í þungavigt.

 „Ég hugsaði í rauninni ekki um Evrópumeistaratitilinn heldur bara að vinna einn bardaga í einu. Þetta voru fimm bardagar á fjórum dögum,“ segir Bjarki. Aðspurður hvort að það sé eitthvað sem hann er vanur svarar Bjarki því neitandi. „Fyrir mótið hafði ég alls tekið sjö bardaga á fjórum árum. Þannig að þetta var mun meira en ég er vanur. En það er ótrúlega gott að hafa fengið þetta í reynslubankann, sérstaklega að hafa tekið tvo bardaga á einum degi. Það var alveg frábært en mjög erfitt. Núna veit ég samt að þegar ég þarf að taka einn bardaga er það ekkert mál.“

Ætlar nú að hvíla í viku

Bjarki segist hafa það nokkuð gott eftir síðustu daga. „Það er pínu eins og það hafi verið keyrt yfir mig en annars er ég góður. Ég er svolítið aumur í ökkla og í öðrum bardaganum tók andstæðingurinn mig í handalás. Þá brakaði svolítið í olnboganum á mér. Ég er samt alveg rosalega heill eftir þetta, fékk eitt höfuðhögg, annars ekki neitt.“

Bjarki er nú á leið heim til Íslands en mótið fór fram í Birmingham í Englandi. Hann ætlar nú að reyna að hvíla sig eftir átök helgarinnar. „Ég held að ég muni hvíla í allavega viku. Leyfa taugakerfinu að jafna sig, þetta eru aðallega átök fyrir það,“ útskýrir Bjarki. „En ef ég þekki mig rétt verð ég örugglega kominn fyrr í ræktina en ég ætlaði mér.“

Bjarki hefur stundað MMA í fimm ár. Þar áður var hann í kraftlyftingum og setti þar m.a. Íslandsmet. Hann ætlar að halda ótrauður áfram í MMA og ætlar í næsta mánuði til Bandaríkjanna í tveggja mánaða æfingaferð. „Síðan ætla ég að taka minn fyrsta bardaga sem atvinnumaður á næsta ári,“ segir Bjarki. Aðspurður hvort það sé markmiðið, að verða atvinnumaður, svarar hann því játandi. „Já, ég stefni alla leið í þessu.“

Drífur mann í það að verða betri manneskja

Bjarki, sem æfir MMA níu sinnum í viku segir íþróttina henta sér vel

„Ég er orkumikill og á  það til að verða eirðarlaus. Með þessari íþrótt fæ ég einhverja stefnu. Mér finnst þetta rosalega gaman og það er skemmtilegt fólk í þessari íþrótt. Það að hafa stefnu og geta bætt sig hefur áhrif á mig. Maður þarf að sigrast á svo miklu, þetta er ekki bara líkamlegt heldur líka mikið andlegt. Þetta drífur mann í það að vera betri manneskja,“ segir Bjarki.

Hann segir lítið annað komast að hjá sér en MMA. Hann æfir eins og fyrr segir, allt að níu sinnum í viku. Hann byrjaði að undirbúa sig fyrir Evrópumeistaramótið í ágúst en síðustu sex vikurnar fyrir mót urðu æfingarnar harðari. Aðspurður hvort að MMA taki mikið af frítíma  hans svarar Bjarki því játandi. „Það er voða lítið annað sem ég geri, líf mitt er eiginlega bara hannað í kringum þetta.“

Hægt er að lesa ítarlega um mótið á vef MMA-frétta.

Bjarki Þór Pálsson
Bjarki Þór Pálsson Ljósmynd/Kjartan Páll Sæmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert