„Ákaflega sérstakt“ ef álverið lokar

Jón Gunnarsson er formaður atvinnuveganefndar.
Jón Gunnarsson er formaður atvinnuveganefndar. mbl.is/Styrmir Kári

Áhrif af mögulegu verkfalli starfsmanna álvers Rio Tinto Alcan í Straumsvík gætu orðið gífurleg, bæði fyrir þá sem koma að samningunum beint og fyrir fyrirtæki sem byggja afkomu sína á viðskiptum við álverið. „Ég hef miklar áhyggjur ef þetta fer með þessum hætti. Ég trúi því ekki að menni nái ekki saman og álverinu verði lokað,“ segir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður atvinnuveganefndar.

Snýst um 32 af 450 starfsmönnum

Aðspurður hvort nefndin hafi kallað til sín forsvarsmenn álversins til að ræða málið segir hann að engin ákvörðun hafi verið tekið um slíkt, en að ef ekkert komi nýtt fram í málinu á næstunni muni nefndin væntanlega leita upplýsinga um stöðuna. Hann tekur þó fram að það væri meira til að glöggva sig á málinu frekar en að hafa áhrif á deiluaðila.

Eins og kom fram í Morgunblaðinu í dag snýst deilan um viðræður vegna 32 starfsmanna álversins af um 450. Vill álverið fá að bjóða út viðkomandi verk til þjónustufyrirtækja, en um er að ræða störf í mötuneyti, þvottahúsi, hliðvörslu og á höfninni. Þessu setja verkalýðsfélögin sig á móti.

„Ákaflega sérstakt“ ef álverinu yrði lokað út af þessu

Jón segir að miðað við það sem hann hafi heyrt sé búið að ná saman um stóru liðina. Eftir standi þó þessi ágreiningur. „Manni finnst það ekki vera stærsta atriðið,“ segir hann og bætir við að það yrði „ákaflega sérstakt“ ef álverinu yrði lokað út af þessu.

Upp hafa komið vangaveltur um þann raforkusamning sem er í gildi milli Landsvirkjunar og Rio Tinto ef rétt reynist hjá forsvarsmönnum Rio Tinto að líkur séu á að álverið opni ekki aftur verði því lokað vegna verkfallsins. Jón segir að falli notkun Rio Tinto niður þýði það að 330 megawött verði ekki í notkun í kerfinu. Aðspurður hvort atvinnuveganefnd myndi skoða það mál segir hann að það væri væntanlega á vettvangi ríkisstjórnarinnar að skoða slíka hluti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert