Ekkert fé í nýjan kennsluflugvöll

Ekki hafa fengist fjármunir í að undirbúa nýjan kennslu- og …
Ekki hafa fengist fjármunir í að undirbúa nýjan kennslu- og einkaflugvöll. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Undirbúningur að gerð ný kennslu- og einkaflugvallar sem ríki og borg sömdu um árið 2013 er enn ekki hafinn vegna þess að fjármunum hefur ekki verið veitt til þess. Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn á Alþingi. Fjármunir í innanlandsflugi hafi verið takmarkaðir.

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, lagði skriflega fyrirspurn fyrir Ólöfu Nordal, innanríkisráðherra, um hvernig undirbúningur flugvallarins af hálfu Isavia og innanríkisráðuneytisins standi í samræmi við samkomulag ríkisins og Reykjavíkurborgar frá 25. október árið 2013.

Í svari ráðherrans kemur fram að fjármunir til rekstrar, uppbyggingar og viðhalds flugvallakerfisins innanlands hafa verið mjög takmarkaðir undanfarin ár og forgangsraðað sé í þágu öryggis flugvalla sem þjóna áætlunarflugi. Hingað til hafi því ekki verið veittir fjármunir til að byggja upp sérstakan æfinga- og einkaflugvöll og undir­búningur því ekki hafinn.

Áformaður flugvöllur yrði fyrst og fremst nýttur til æfinga-, kennslu- og einkaflugs. Ef notkun flugvallarins yrði umfangsmikil gætu opnast möguleikar fyrir flugtengda þjónustu, svo sem viðhald einkaflugvéla og eldsneytissölu.

Um mögulegar staðsetningar slíks flugvallar nefnir innanríkisráðherra Keilisnes fáist fjármunir til frekari uppbyggingar á flugvelli fyrir kennslu- og einkaflug. Flugvöllurinn á Sandskeiði hafi einnig verið byggður upp og er hann í dag notaður fyrir svifflug og snertilendingar flugvéla í æfinga- og kennsluflugi. Nýlega voru kannaðir möguleikar á að koma þar fyrir aðstöðu fyrir kennslu- og einkaflug en heilbrigðisyfirvöld á svæðinu lögðust gegn því vegna nálægðar við vatnsból höfuð­borgar­svæðisins.

Þá var flugvöllurinn á Stóra-Kroppi byggður upp og er í dag nýttur fyrir kennslu-, æfinga- og einkaflug. Flugvöllur á Selfossi er ekki í eigu ríkisins en til hans hafa verið veittir styrkir gegn því að hann verði almennt opinn fyrir kennslu-, æfinga- og einkaflug.

Flugvöllurinn á Sandskeiði var einnig byggður upp og er hann í dag notaður fyrir svifflug og snertilendingar flugvéla í æfinga- og kennsluflugi. Nýlega voru kannaðir möguleikar á að koma þar fyrir aðstöðu fyrir kennslu- og einkaflug en heilbrigðisyfirvöld á svæðinu lögðust gegn því vegna nálægðar við vatnsból höfuð­borgar­svæðisins, að því er kemur fram í svari innanríkisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert