Falsaði hlutafjárstöðu einkahlutafélags

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is

Karlmaður á fimmtugsaldri var dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa látið líta út fyrir að hlutafé í einkahlutafélagið hans hefði hækkað. Lagði maðurinn fé sem hann fékk lánað frá lögmanni inn og tók út ítrekað til að skapa þá ímynd.

Í dómnum kemur fram að forsvarsmaður félagsins lagði 2,5 milljónir króna inn á reikning félagsins, sem hann stofnaði utan um verktakarekstur sem ekkert varð af árið 2007, í júní 2010 en tók upphæðina strax út aftur. Endurtók maðurinn það tvisvar sama dag.

Tilgangurinn var sá að láta líta út fyrir að hlutafé í einkahlutafélaginu hafi hækkað úr 500.000 krónum í 8.000.000 til að greiða fyrir frekari fyrirgreiðslu til félagsins vegna húsnæðiskaupa í atvinnuskyni. Eftir að hann hafði tekið féð út í síðasta skipti skilaði hann því til lögmannsins.

Auk þess var maðurinn ákærður fyrir að hafa skýra vísvitandi og rangt og villandi frá högum félagsins vegna hækkunar hlutafjárins í tilkynningu til hlutafélagaskrár og fyrir meiriháttar brot á lögum um bókhald. Hann hélt ekki bókhald um rekstur félagsins árin 2007, 2008, 2010, 2011 og 2012 þegar félagið var loks tekið til gjaldþrotaskipta.

Maðurinn neitaði sök en fyrir dómi viðurkenndi hann þá háttsemi sem lýst var í ákærunni. Hann var því sakfelldur og dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi. Var þar meðal annars litið til þess að maðurinn hafi ekki gerst brotlegur áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert