Hættulegur barnaskapur á þingi

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingflokksformaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingflokksformaður Pírata.

Ólíkar túlkanir á hvað telst vera „hættulegur barnaskapur“ komu fram í umræðum á Alþingi í dag. Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, notaði þau orð um það ef ekkert væri gert til að herða landamæraeftirlit en Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði það að ætla að svara hryðjuverkaógn með reiðidrifinni taugaveiklun væri raunverulegi barnaskapurinn.

Karl sagðist styðja Schengen-samstarfið en í ljósi hryðjuverkanna í París væri það beinlínis óábyrgt að kanna ekki að veita meira fjármagni í landamæravörslu. Lagði hann til að stjórnvöld skoðuðu að herða landamæraeftirlit, að minnsta kosti tímabundið.

„Það að gera ekkert í þeirri trú að útilokað sé að hér gerist nokkuð sem kallar á aukinn viðbúnað er ekki bara barnaskapur heldur beinlínis hættulegur barnaskapur. Þetta snýr [svo] nefnilega ekki um að taka á móti öllum með faðmlagi og kossum. Þetta snýst um öryggi þeirra sem búa og dvelja í þessu landi,“ sagði Karl.

Skortur á hörku er ekki vandinn

Helgi Hrafn sagðist hafa miklar áhyggjur af orðræðu sem hann heyrði í samfélaginu um að samkennd og skilningur, almennt talað að því er virtist, væri einhvers konar barnaskapur. Ræða Karls hefði fyllt hann þessum ótta aftur.

„Það að ætla að svara hryðjuverkaógninni með einhvers konar reiðidrifinni taugaveiklun, það er hættulegur barnaskapur, virðulegur forseti, sér í lagi ef maður lítur til lexíu sögunnar,“ sagði þingmaðurinn.

Vel megi vera að lögreglan þurfi fleiri vopn en hún þurfi líka sjálfstætt eftirlit. Vel megi vera að herða þurfi landamæraeftirlit en líka þurfi að skilja rót vandans.

„Rót vandans er ekki það að við séum ekki nógu hörð, eða nógu sterk eða nógu mikið í stríði. Það er ekki vandinn, hann liggur annars staðar, og það er ábyrgðarhlutverk okkar ef við ætlum að kalla okkur þroskað fólk að skilja vandann sem við erum að reyna að leysa,“ sagði Helgi Hrafn.

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert