Húsið er gjörónýtt eftir eldsvoða

Frá eldsvoðanum að Gagnheiði 17 á Selfossi þar sem Plastiðjan …
Frá eldsvoðanum að Gagnheiði 17 á Selfossi þar sem Plastiðjan var til húsa Ljósmynd Kristján Bergsteinsson

Húsið að Gagnheiði 17 er gjörónýtt eftir eldsvoðann í gærkvöldi en slökkvistarf stendur enn yfir. Formlegu slökkvistarfi lauk um sjöleytið í morgun en síðan þá hefur slökkviliðið sent dælubíla á staðinn í tvígang til að slökkva í glæðum. Tjónið er mikið en það tókst að verja nærliggjandi hús.

Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnesinga, hefur staðið vaktina frá því á ellefta tímanum í gærkvöldi ásamt félögum sínum í Brunavörnum Árnesinga. 

Hann segir að það hafi verið ljóst nánast strax að ekki yrði hægt að bjarga húsinu sem brann og því áhersla lögð á að slökkva mesta eldinn og verja nærliggjandi hús, Gagnheiði 15, sem tengd húsinu sem brann, og Gagnheiði 15. Mjög ánægjulegt sé að það tókst. 

Pétur segir að húsið, þar sem Plastiðjan var með starfsemi, sé ónýtt og verði ekki endurbyggt.

Að sögn Péturs er mjög erfitt að eiga við eldsvoða sem þennan þar sem mikið plast er og síðan hafi stálplötur fallið yfir plastefnið sem geri allt starf slökkviliðsins erfitt. 

Rannsókn á eldsupptökum er ekki hafin enda ekki enn hægt að fara inn í rústir hússins en líklegt þyki að það hafi kviknað í útfrá rafmagni. Unnið er í Plastiðjunni allan sólarhringinn og var einn maður á vakt þegar kviknaði í. Hann slapp út úr húsinu án meiðsla og gat látið lögreglu vita af eldsvoðanum.

Mikil mengun fylgir plastbruna og er mikil mengun enn í brunarústunum. Það hafi verið eitt af því sem var sett í forgang við slökkvistarfið að koma í veg fyrir að mengunin breiddist út. Íbúar í nokkrum götum í nágrenninu þurftu að fara af heimilum sínum vegna brunans en fengu að snúa aftur heim um tvö í nótt.

Fjölmargir tóku þátt í slökkvistarfinu, Brunavarnir Árnessýslu, lögreglan á Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu, björgunarsveitarfólk og félagar í Rauða krossinum. 

Ekki er langt síðan öll slökkvilið í Árnessýslu sameinuðust undir einn hatt, Brunavarnir Árnessýslu, og segir Pétur að mikil áhersla hafi verið lögð í þjálfun starfsfólks og samhæfingu. Það skili sér í stórbrunum sem þessum. 

Það verður vakt við húsið í dag og vonast Pétur til þess að slökkvistarfi fara að ljúka svo hægt verði að hefja rannsókn á brunanum.

Frá vettvangi í gærkvöld.
Frá vettvangi í gærkvöld. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert