Hvatti ekki til viðskiptanna

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson ásamt lögmanni sínum.
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson ásamt lögmanni sínum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Engar ákvarðanir um rekstur félagsins Stím voru teknar hjá Saga Capital. Þetta sagði Björgvin Þorsteinsson, verjandi Þorvaldar Lúðvíks Sigurjónssonar fyrrverandi bankastjóra Saga Capital, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun þar sem málflutingur fer fram í svonefndu Stím-máli, en Þorvaldur er einn ákærðra í málinu. Aðrir ákærðir eru Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis banka, og Jóhannes Baldursson, fyrrverandi framkvæmdastjóra markaðsviðskipta bankans.

Þorvaldur er ákærður fyrir hlutdeild í meintum umboðssvikum Jóhannesar með því að hafa hvatt til þess að fjárfestingasjóðurinn GLB FX, í eigu Glitnis, keypti skuldabréf Saga Capital í Stím og liðsinnt Jóhannesi í þeim viðskiptum. Markmiðið hafi verið að Saga Captal fengi kröfu sína að fullu greidda en tapinu vegna bréfanna velt yfir á Glitni. Þorvaldur hafi ennfremur haft persónulegra hagsmuna að gæta en hann hafi átt 12% hlut í Saga Capital.

Hlutdeild í hlutdeildarbroti?

Björgvin sagði engar ákvarðanir um rekstur Stím hafa verið teknar hjá Saga Captal. Þær hafi allar verið teknar hjá Glitni banka. Ekki hafi verið fyrir að fara loforði um skaðleysi til handa Saga Capital vegna viðskiptanna heldur hafi Þorvaldur einfaldlega litið svo a að aðkoma Glitnis að Stími væri trygging fyrir kröfunni. Bankinn hafi á þessum tíma staðið vel, skilað góðum hagnaði árið 2007, og enginn hafi á þeim tíma átt von á að bankinn ætti eftir að fara í þrot.

Vakti Björgvin máls á því að ákvarðanir um fjárfestingar GLB FX hafi verið teknar af Magnúsi Pálma Örnólfssonar, sjóðstjóra fjárfestingasjóðsins. Hugsanlega hefði saksóknari í hyggju að breyta ákærunni á hendur Jóhannesi á þá leið að hann hefði átt hlutdeild í broti Magnúsar sem sá síðarnefndi hefði fengið friðhelgi gagnvart. Velti Björgvin því fyrir sér hvort Þorvaldur yrði þá í framhaldinu sakaður um hlutdeild í meintu hlutdeildarbroti Jóhannesar.

Umboð forsenda umboðssvika

Björgvin sagði furðulegt að sleppa aðalmanni, það er Magnúsi, en ákæra á sama tíma annan fyrir hlutdeild í brotum hans. Vakti hann ennfremur máls á því að forsenda ákæru fyrir umboðssvik væri að viðkomandi hefði haft umboð. Ólíkt Magnúsi Pálma hefði Jóhannes ekki haft neitt umboð til að taka ákvarðanir um fjárfestingar GLB FX. Magnús hafi hins vegar enga heimild haft til að taka við meintum fyrirmælum frá Jóhannesi um kaup á skuldabréfinu í Stím.

Hafnaði Björgvin því að Þorvaldur hefði á nokkurn hátt hvatt Jóhannes til viðskiptanna með skuldabréfið í Stím. Engin gögn í málinu sýndu fram á að slík hvatning hefði átt sér stað. Gagnrýndi hann ennfremur harðlega hvernig staðið hefði verið að rannsókn málsins. Sakborningum hafi meðal annars verið neitað um aðgang að gögnum í málinu þvert á lög og dómstólar tekið í mörgum tilfellum undir með ákæruvaldinu í þeim efnum.

Fór Björgvin fram á að Þorvaldur Lúðvík yrði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins og sakarkostnaður greiddur úr ríkissjóði. Þar með talin málsvarnarlaun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert