Íbúarnir meira og minna undir áhrifum fíkniefna

AFP

Lögregla kölluð til vegna innbrots í bifreið á höfuðborgarsvæðinu um ellefu leytið í gærkvöldi. Grunur lék á að íbúar í nálægu húsi tengdust málinu en þeir höfðu ítrekað tengst misjöfnum málum.

Þegar lögregla knúði dyra hjá þeim gaus upp mikil kannabislykt þegar opnað var. Lögregla fór inn og handtók þrjá. Inni í íbúðinni fundust ýmis fíkniefni, sterar, nokkuð af lyfjum, ýmsir munir sem grunur lék á að væru þýfi ásamt munum sem eigandi bifreiðarinnar saknaði. Íbúarnir voru meira og minna undir áhrifum fíkniefna og eru vistaðir í fangaklefa þar til hægt verður að taka af þeim skýrslu.

Síðdegis í gær var óskað aðstoðar lögreglu vegna þess að bifreið var lagt á þann hátt að hún lokaði inni aðrar bifreiðar. Málið leystist með símtali í eiganda bifreiðarinnar en ítrekað kemur fyrir að lögregla þarf að láta draga bifreiðar á brott sem hefur verið á lagt fyrir aðrar bifreiðar, segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert