Leikskólabörnum haldið inni

Frá vettvangi í morgun.
Frá vettvangi í morgun. mbl.is/Styrmir Kári

Tveir starfsmenn tryggingafélagsins Sjóvár eru nú við grunnskoðun á verksmiðju Plastiðjunnar á Selfossi sem brann í nótt áður en fundað verður með eigendum hennar. Að sögn blaðamanns mbl.is á vettvangi er enn mikil plastlykt á svæðinu og hefur starfsmönnum leikskóla í grenndinni verið ráðlagt að halda börnunum innandyra.

Reykur stígur enn upp frá verksmiðju Plastiðjunnar við Gagnheiði 17 á Selfossi eftir brunann í nótt og er mikil plastlykt í lofti. Blaðamaður mbl.is hefur eftir Pétri Péturssyni, slökkviliðsstjóra Brunavarna Árnesinga, að engin hætta sé á ferðum vegna lyktarinnar.

Bæjarstarfsmenn eru að störfum við vettvang en greinilegt er að bæjarbúar hafa töluverðan áhuga á að berja brunarústirnar augum því þó nokkur umferð hefur verið fram hjá húsinu í morgun.

Fyrr í morgun sagði Pétur í samtali við mbl.is að húsnæðið væri gerónýtt eftir eldsvoðann. Axel Óli Ægisson, framkvæmdastjóri Plastiðjunnar, sagði jafnframt að „altjón“ hafi orðið á fyrirtækinu.

Verksmiðja Plastiðjunnar er illa leikin eftir brunann. Framkvæmdastjóri hennar lýsir …
Verksmiðja Plastiðjunnar er illa leikin eftir brunann. Framkvæmdastjóri hennar lýsir tjóninu sem altjóni. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert