Listahátíð haldin annað hvert ár

Hanna Styrmisdóttir stýrir Listahátíð Reykjavíkur.
Hanna Styrmisdóttir stýrir Listahátíð Reykjavíkur. mbl.is/RAX

Stefnt er að því að breyta Listahátíð í Reykjavík í tvíæring á nýjan leik en undanfarin tíu ár hefur hátíðin verið haldin á hverju ári. Áður var hún haldin annað hvert ár í rúma þrjá áratugi. Næsta Listahátíð hefst 13. maí 2016 og er það þrítugasta Listahátíð Reykjavíkur. 

Listahátíð í Reykjavík var haldin í fyrsta sinn árið 1970 og á tveggja ára fresti allt til ársins 2005 þegar hún varð einæringur. Nú hefur stjórn hátíðarinnar verið falið að hefja undirbúning að breytingu hennar í tvíæring á ný með það að markmiði að efla hátíðina frá listrænu og rekstrarlegu sjónarhorni og undirstrika vægi hennar og hlutverk í íslensku listalífi. 

Mikill tekjusamdráttur

Nokkur umræða hefur skapast  um rekstur hátíðarinnar en tekjur hennar hafa dregist mjög saman á síðasta áratug, m.a. vegna lækkandi framlaga opinberra aðila. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Listahátíð sem barst í morgun en í tilkynningunni er fjallað um fund fulltrúaráðs Listahátíðar sem haldinn var í septembermánuði.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra og formaður Fulltrúaráðs Listahátíðar, nefndi á fundinum sem haldinn var 28. september að þrátt fyrir þær aðstæður og mikla aukningu í framboði á menningarviðburðum, hefði tekist vel á síðustu árum að finna hátíðinni réttan farveg þannig að hún hefði sína sérstöku rödd og sérstaka tilgang. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og varaformaður fulltrúaráðs kvaðst hlakka mikið til næstu hátíðar en hún verður sú þrítugasta frá upphafi.

Kjartan Örn Ólafsson sem setið hefur í stjórn Listahátíðar fyrir hönd menntamálaráðherra frá 2010, sem formaður stjórnar 2010 - 2012, varaformaður 2012 - 2014 og aftur formaður frá 2014 - 2015, lét af stjórnarsetu á fundinum.

Þórunn Sigurðardóttir tekur við sem stjórnarformaður Listahátíðar, skipuð af ráðherra en hún var listrænn stjórnandi Listahátíðar frá 2000 - 2008 og stjórnarformaður hennar árin 1996 - 1998.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert