Vilja stórefla upplýsingagjöf til innflytjenda

Frá fundinum í kvöld.
Frá fundinum í kvöld.

Haldinn var í kvöld fyrsti sameiginlegi fundur borgarstjórnar og fjölmenningarráðs Reykjavíkur, en samþykkt var að efna til átaks í því skyni að stórefla upplýsingamiðlun til innflytjenda á heimasíðu Reykjavíkurborgar.

Meðal þess sem fram kom á fundinum var að á heimasíðu Reykjavíkurborgar er ekki að finna upplýsingar um fjölmenningarráð á öðru tungumáli en íslensku auk þess sem nýjustu fréttir á heimasíðunni, sem eru á erlendum tungumálum, eru um tveggja ára gamlar.

Í tillögu sem Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, mælti fyrir á fundinum kemur fram að þörf sé á sérstöku átaki til að efla upplýsingamiðlun til innflytjenda.

„Enda hefur komið fram hér á fundinum að á heimasíðunni er ekki að finna upplýsingar um fjölmenningarráð á öðru tungumáli en íslensku. Þá eru nýjustu fréttir á heimasíðunni, sem eru á erlendum tungumálum, um tveggja ára gamlar. Mælst er til þess að öll svið borgarinnar stórauki upplýsingamiðlun á erlendum tungumálum á vefsíðum sínum og að því verði beint til íþróttafélaga og annarra aðila, sem veita innflytjendum mikilvæga þjónustu, að gera slíkt hið sama,“ segir í tillögunni en samþykkt var með lófataki að vísa henni til borgarráðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert