189.400 manns á vinnumarkaði

Atvinnuleysi dróst saman um 1,2 prósentustig frá því í október …
Atvinnuleysi dróst saman um 1,2 prósentustig frá því í október 2014, úr 5% í 3,8%. Kristinn Ingvarsson

Samkvæmt Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands voru að jafnaði 189.400 manns á aldrinum 16-74 ára á vinnumarkaði í október 2015, sem jafngildir 81% atvinnuþátttöku. Af þeim voru 182.200 starfandi og 7.200 án vinnu og í atvinnuleit.

Hlutfall starfandi af mannfjölda var 78% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 3,8%. Samanburður mælinga fyrir október 2014 og 2015 sýnir að atvinnuþátttaka minnkaði um 0,8 prósentustig og hlutfall starfandi fólks stóð nánast í stað. Atvinnuleysi dróst hins vegar saman um 1,2 prósentustig frá því í október 2014, úr 5% í 3,8%.

Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi 4% í október

Samkvæmt árstíðaleiðréttingu var fjöldi fólks á vinnumarkaði 191.400 í október 2015 sem jafngildir 82% atvinnuþátttöku, sem er 0,8 prósentustigum lægri en hún var í september. Samkvæmt árstíðaleiðréttingu þá stóð bæði hlutfall og fjöldi atvinnulausra í stað á milli september og október eða 7.600 manns sem jafngildir 4%atvinnuleysi.

Leiðrétt hlutfall starfandi fólks í október 2015 var 78,7% og minnkaði um 0,7 prósentustig frá því í september. Þegar horft er til síðustu sex mánaða þá sýnir leitni vinnuaflstalna að atvinnuleysi stendur í stað og á það raunar við um allar tölur um vinnuafl. Þróun síðustu 12 mánaða sýnir þó að atvinnuleysi hefur lækkað um 0,3 prósentustig, hlutfall starfandi aukist um 0,5 stig og atvinnuþátttaka um 0,3.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert