Ljósaganga í grenjandi rigningu

Jóhanna Hjálmtýsdóttir og Iðunn Brynjarsdóttir
Jóhanna Hjálmtýsdóttir og Iðunn Brynjarsdóttir Eggert Jóhannesson

Yfir hundrað manns létu ekki grenjandi rigningu stoppa sig í að mæta í Ljósagöngu UN Women sem fór fram í kvöld á alþjóðlegum baráttudegi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi. Dagurinn markar upphaf 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi sem UN Women á Íslandi ásamt öðrum félagasamtökum hér á landi eru í forsvari fyrir.

Yfirskrift Ljósagöngunnar í ár var – „Heyrum raddir allra kvenna“. Freyja Haraldsdóttir, talskona Tabú hélt hugvekju og leiddi gönguna í kjölfarið sem endaði við Bríetartorg á Þingholtsstræti þar sem Háskólakórinn söng og viðstaddir yljuðu sér við kakóbolla.

Jóhanna Hjálmtýsdóttir og Iðunn Brynjarsdóttir
Jóhanna Hjálmtýsdóttir og Iðunn Brynjarsdóttir Eggert Jóhannesson

Freyja sagði í ræðu sinn að talið væri að um 85% fatlaðra kvenna upplifi ofbeldi á lífsleiðinni. ,,Ef við erum einnig jaðarsettar á grundvelli annarra þátta aukast líkurnar enn frekar, t.d. ef við erum hinsegin og af erlendum uppruna. Fötlunarfyrirlitning er ekki einungis orsök ofbeldis heldur einnig afleiðing þess. Margar konur fatlast varanlega sökum ofbeldis og er þar með ýtt enn frekar út á jaðarinn.”

Einnig sagði Freyja forsendu þess að geta skilgreint okkur sjálf er jafnframt að vera meðvituð um forréttindi okkar - sem við ferðumst með í ósýnilegum bakpoka allt lífið. ,,Ef ég lýsi ofan í minn bakpoka má finna ýmis forréttindi. Ég er hvít og gagnkynhneigð. Ég bý í landi þar sem ekki eru stríðsátök. Ég hef haft tækifæri til þess að mennta mig. Ég hef meiri aðgang að valdi en margar konur sem varaþingkona. Ég er ein fárra fatlaðra kvenna með notendastýrða persónulega aðstoð og get því verið hér í kvöld að taka þátt í rjúfa þögn kvenna og leiða ljósagöngu UN Women gegn kynbundnu ofbeldi.”

Freyja Haraldsdóttir.
Freyja Haraldsdóttir. Eggert Jóhannesson




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert