Ákvarðanir Vinnslustöðvarinnar ógiltar

Vinnslustöðin.
Vinnslustöðin.

Héraðsdómur Suðurlands hefur ógilt tvær ákvarðanir hluthafafundar Vinnslustöðvarinnar að kröfu útgerðarfélagsins Stillu, en þar er kveðið á um samruna Vinnslustöðvarinnar og Ufsabergs-útgerðar og að hækka hlutafé í Vinnslustöðinni. Áður hafði Hæstiréttur dæmt samrunann ógildan. Ákvarðanirnar sem héraðsdómur ógilti með dómi sínum eru eftirfarandi:

„Hluthafafundurinn samþykkir samruna Ufsabergs-útgerðar ehf. og Vinnslustöðvarinnar hf. þar sem Vinnslustöðin hf. verður yfirtökufélagið.“
og
„Hluthafafundurinn samþykkir að hækka hlutafé Vinnslustöðvarinnar hf. um 611.067 evrur. Forkaupsréttur hluthafa gildir ekki um viðbótarhlutaféð og veitir hluthafafundurinn stjórn félagsins heimild til að ráðstafa hinu nýja hlutafé ásamt eigin bréfum félagsins að nafnvirði 96.598 evrur til annarra hluthafa Ufsabergs-útgerðar ehf. (samtals 707.665 evrur) í samræmi við samrunaáætlun félaganna.“

Í tilkynningu frá fulltrúum Stillu útgerðar ehf. Segir að ofangreindar ákvarðanir hafi ekki verið teknar með hagsmuni fyrirtækisins í huga.

Talsverðar deilur hafa verið milli eigenda félagsins, en Stilla tengist útgerðarmönnunum og bræðrunum Guðmundi Kristjánssyni og Hjálmari Kristjánssyni sem koma af Snæfellsnesi. Hafa þeir og aðrir hluthafar félagsins deilt undanfarin ár, m.a. vegna þess að feðgarnir töldu að greitt hafi verið of hátt verð fyrir Ufsaberg á sínum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert