Gæti gerst með skömmum fyrirvara

Ólöf Nordal innanríkisráðherra.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvernig til tekst á næstunni að ná tökum á ástandinu á Schengen-svæðinu er grundvallaratriði og mun hafa afgerandi áhrif á það hvernig framhald samstarfsins verður. Þetta sagði Ólöf Nordal innanríkisráðherra á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur, þingflokksformanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Ólöf sagði íslensk stjórnvöld hafa miklar áhyggjur af stöðunni á svæðinu líkt og önnur aðildarríki þess.

Svandís spurði ráðherrann hver stefna ríkisstjórnarinnar væri í málinu og vísaði til ummæla Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra í Morgunblaðinu í dag þar sem hann sagði að hann hefði aldrei haft sterka sannfæringu fyrir aðild Íslands að Schengen-samstarfinu. Vísaði hún einnig til gagnrýni Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, á samstarfið á dögunum sem hún sakaði um að ala á ótta og sundrungu í samfélaginu. Ólöf sagði stefnu íslenskra stjórnvalda óbreytta í þeim efnum. Landið væri aðili að Schengen-samstarfinu og engin áform væru um stefnubreytingu í þeim efnum.

Ræða þarf kosti og galla Schengen

„Það er mikilvægt að við séum með opin augun fyrir bæði kostum og göllum þess að vera aðilar að Schengen. Og við skulum ekkert vera hrædd við það að ræða líka um galla Schengen þótt við þurfum líka að gera okkur grein fyrir kostunum. Við höfum ekki tekið neina ákvörðun um það að herða umfram það sem nú er landamæraeftirlitið. Þá er ég að tala um að reisa íslensku landamærin. Sú ákvörðun er tekin þegar fyrir liggur hættumat ríkislögreglustjóra,“ sagði Ólöf.

Slíkt hættumat gæti legið fyrir með mjög skömmum fyrirvara að sögn innanríkisráðherra og verið lagt fram hvenær sem væri. Fylgst væri náið með stöðu mála, bæði af hálfu stjórnvalda og ríkislögreglustjóra, en slík ákvörðun hefði ekki verið tekin enn. Svandís fagnaði því að engin stefnubreyting varðandi Schengen væri í farvatninu sem væri mikilvægt að fá staðfest í ljósi ummæla forsætisráðherra. Sakaði hún Sigmund Davíð um að ræða málin í hálfkæringi.

Ekki bundið við forsætisráðherra

Formaður Samfylkingarinnar, Árni Páll Árnason, gagnrýndi forsætisráðherra að sama skapi fyrir ummæli hans um Schengen og sakaði hann um að „lýsa algeru frati“ á samstarfið og að ekkert gagn væri að því. Hann væri eini forystumaður Evrópuríkis sem léti slík ummæli falla. Sagði hann Schengen hafa skilað miklu við að opna landamæri og tryggja öryggi íbúa aðildarríkja samstarfsins. Óskaði hann eftir viðbrögðum innanríkisráðherra varðandi þessi mál.

Ólöf benti á að forystumenn annarra Schengen-ríkja sem og Evrópusambandsins sjálfs ræddu einnig, líkt og forsætisráðherra, um að það skipti sköpum fyrir framtíð samstarfsins hvernig til tækist að taka á þeim vandamálum sem það stæði frammi fyrir. Staðan í dag væri sú að Ísland væri í Schengen-samstarfinu en engu að síður þyrftu Íslendingar að vera reiðubúnir að ræða galla þess og hvernig bregðast ætti við þeim. Ljóst væri að aldrei hefði reynt eins mikið á samstarfið og um þessar mundir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert