Hálka tekin að aukast

mbl.is/Styrmir Kári

Um land allt eru nú nokkuð snögg umskipti með kólnandi veðri. Þessu fylgja auknar líkur á éljum. Varað er sérstaklega við hálku sunnan- og vestantil á landinu.

Samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni er hálka nú heldur að aukast á Suður- og Suðvesturlandi og eru hálkublettir á Reykjanesbraut og hálka á Grindavíkurvegi. Einnig er hálka á Hellisheiði, Sandskeiði og Mosfellsheiði, en hálkublettir í Þrengslum. Eins eru hálkublettir á köflum á Suðurlandi.

Hálka er á Holtavörðuheiði og á Bröttubrekku en vegir á Vesturlandi eru þó víða ýmist auðir eða með stöku hálkublettum.

Hálka og hálkublettir eru á Vestfjörðum og éljagangur nokkuð víða. Snjóþekja er á Steingrímsfjarðarheiði en Hrafnseyrarheiði er ófær.

Hálka eða hálkublettir eru allvíða á Norðurlandi og éljagangur við Eyjafjörð. Hálka er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum og flughált á Dettifossvegi. Á Austurlandi er víða nokkur hálka, sérstaklega á fjallvegum. Greiðfært er að mestu með suðausturströndinni en þó eru hálkublettir í Öræfasveit og á Skeiðarársandi.

Nánar um veður á veðurvef mbl.is

Fyrr í dag byrjaði að snjóa á höfuðborgarsvæðinu og má meðal annars sjá myndir frá upphafi snjókomunnar hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert