Snýst um tugi milljóna skjala

Hörður Felix Harðarson og Hreiðar Már Sigurðsson, skjólstæðingur hans.
Hörður Felix Harðarson og Hreiðar Már Sigurðsson, skjólstæðingur hans. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Tekist var á um það fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag hvort þeir sem ákærðir eru í svonefndu Chesterfield-máli fengju aðgang að öllum gögnum málsins, þeim hluta þeirra sem lægju til grundvallar málatilbúnaði ákæruvaldsins eða alls ekki. Saksóknari og verjendur ákærðu gerðu grein fyrir afstöðu sinni og verður úrskurður dómara kynntur síðar.

Þrír eru ákærðir í Chesterfield-málinu. Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings banka, og Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, eru ákærðir fyrir stórfelld umboðssvik og fyrir að hafa valdið Kaupþingi „gríðarlegu og fáheyrðu“ fjártóni, að því er segir í ákæru. Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, er einnig ákærður í málinu fyrir hlutdeild í umboðssvikunum. Hinir ákærðu voru ekki viðstaddir fyrirtöku kröfunnar í héraðsdómi.

Lánveitingar Kaupþings til sex félaga, sem skráð voru á Bresku Jómfrúareyjum árið 2008, eru kjarni ákærunnar í málinu, en þær námu samtals 510 milljónum evra, eða sem nemur á bilinu 67,3-69,5 milljörðum króna miðað við gengi evrunnar á þeim tíma sem lánin voru veitt. Ákæruvaldið telur að lánin hafi verið veitt félögunum án þess að lánshæfi þeirra hafi verið metið og án þess að samþykki lánanefndar Kaupþings hafi legið fyrir. 

Hagsmunir ákærðra manna vegi þyngra

Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más, gerði kröfu um það fyrir héraðsdómi að hinir ákærðu fengju aðgang að öllum gögnum sem haldlögð hefðu verið vegna málsins en til vara þeim gögnum sem lægju til grundvallar ákærunni. Sagði hann að ákærðir menn ættu ekki að þurfa að sæta mati ákæruvaldsins hverju sinni um hvaða gögn skiptu máli og hver ekki. Vísaði hann máli sínu til stuðnings til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu.

Björn Þorvaldsson saksóknari fór fram á það að kröfunni um aðgang að gögnunum yrði hafnað. Vísaði hann í því skyni til dóma Hæstaréttar þess efnis að ákæruvaldinu yrði ekki gert að afhenda gögn sem kynnu að varða fjárhagslega og persónulega hagsmuni annarra en hinna ákærðu. Þá væri um gríðarlegt magn gagna að ræða, tugi milljóna skjala. Þá kæmi krafan um aðgang að gögnunum seint fram þegar aðeins vika væri í aðalmeðferð.

Hörður sagði umfang gagnanna aðeins þýða ríkari ástæðu til þess að veita aðgang að þeim. Taldi hann dóma Hæstaréttar ekki eiga við í þessu máli og lagði áherslu á að hagsmunir ákærðra manna hlytu að vega þyngra en þeirra sem ekki sættu ákæru. Þá snerist málið ekki um afhendingu gagna heldur aðgang að þeim. Engin hætta væri á að trúnaðargögn væru á flakk. Björn sagði engu skipta hvort talað væri um aðgang eða afhendingu. Niðurstaðan væri sú sama.

Aðalmeðferð málsins hefst 3. desember samkvæmt áætlun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert