„Þetta er raunveruleikinn“

Fangelsismálastjóri segir að það þurfi að skerpa á reglum um heimsóknartíma í fangelsum landsins í nýju frumvarpi innanríkiráðherra um fullnustu refsinga. Í umsögn stofnunarinnar um nýja frumvarpið kemur m.a. fram að til séu fjöl­mörg dæmi um ung­ar stúlk­ur sem hafa komið á Litla-Hraun eft­ir að fang­ar höfðu sett þær á heim­sókn­arlist­ann sinn. Við komu í fang­elsið varð fanga­vörðum hinsvegar ljóst að þær þekktu ekki fang­ana í sjón sem þær ætluðu að heim­sækja.

Þar að auki er vitnað í dæmi þegar að fang­ar „stilltu“ stúlk­um upp í glugga heim­sókn­ar­her­berg­is sem vísaði út á fót­bolta­völl fang­els­is­ins en þar stóðu aðrir fang­ar og vísuðu þum­al­fingri sín­um annaðhvort upp eða niður eft­ir því hvort þeir vildu fá þær í heim­sókn til sín eða ekki.

Fyrri frétt mbl.is: Fangar gáfu stúlkum einkunnir með þumalfingri

Einfaldlega að segja hlutina eins og þeir eru

Páll segir þessi dæmi óhugnanleg en sett fram af brýnni nauðsyn.

„Við setjum fram þessar upplýsingar í umsögn okkar því svona tilvik hafa komið upp og með  þessu erum við að rökstyðja af hverju það þurfi að breyta reglum sem eru í gildi,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri í samtali við mbl.is. Hann leggur þó áherslu á að almennt séu hlutirnir í góðu lagi.

Aðspurður hvort að þeim tilvikum sem sé lýst í umsögninni sem dæmi um vændi segir Páll það mögulegt. „Þetta er vissulega óhugnanlegt en við erum einfaldlega að segja hlutina eins og þeir eru og okkur ber skylda til þess. Þetta er raunveruleikinn sem við höfum verið að glíma við. Þetta er bara partur af Íslandi, það er vændi hér á landi og það smitar inn á fangelsin eins og aðra kima samfélagsins.“

Margt gott í nýju frumvarpi

Að sögn Páls hefur stofnunin verið að bregðast við þessum atvikum innan þeirra heimilda sem hún hefur. Meðal annars með því að takmarka fjölda heimsóknagesta og að menn þurfi að láta vita fyrirfram af nýjum heimsóknargestum með tveggja vikna fyrirvara.

„En við  þurfum lögin með okkur í liði,“ segir Páll. Hann bætir við að það sé margt gott í nýju frumvarpi innanríkisráðherra. „Meginatriðið í þessum lögum snýst að því að auka líkur á því að fangar séu losaðir stigsskipt úr afplánum og eigi þannig meiri möguleika á að fóta sig að henni lokinni. Þar á ég við rýmkun á samfélagsþjónustu, rýmkun á rafrænu eftirliti, auknu aðgengi fanga að interneti í opnum og lokuðum fangelsum og nýtt tveggja sólahringa leyfi úr afplánum til dæmis. Það er fullt af atriðum í þessu sem við teljum mikilvæg til að draga úr einangrun fanga en því miður er nauðsynlegt að skerpa á heimsóknarreglum.“

Aðspurður hvort það sé einhver leið til að auka skilgreiningu á samböndum á milli fanga og gesta segir hann það ekki hægt. „Fangar eru ekki aflokaðir frá umheiminum og eiga ekki vera það. Sambönd verða til þar eins og annarsstaðar,“ segir Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert