Tjónafalsarar dæmdir

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Ómar

Tveir menn á þrítugsaldri voru í Héraðsdómi Reykjaness í dag dæmdir fyrir að reyna að svíkja fé út úr tryggingafélögum með því að skila inn fölsuðum tjónatilkynningum.

Brotin voru framin árið 2008 en í öðru málinu, sem þeir voru báðir ákærðir fyrir, skiluðu tvímenningarnir tjónatilkynningu þar sem málsatvikum var lýst. Eitthvað stóð á greiðslum frá tryggingafélaginu og fóru þá að berast tölvupóstar frá fyrirtæki þar sem „Alfreð“ ritar undir og kvartar undan hægagangi tryggingafélagsins og þetta sé farið að nálgast skrípalæti hvað gangi illa að fá greitt út úr tryggingunum. Fyrir dómi viðurkenndi annar mannanna að hafa sent tölvupóstana en hann heitir alls ekki Alfreð.

Tryggingafélagið fór með málið til lögreglu árið 2011 og hún ákærði síðan mennina tvo fyrir fjársvik.

Mennirnir neituðu sök og fullyrtu fyrir dómi að óhappið hefði orðið með þeim hætti að annar þeirra hefði ætlað að snúa jeppabifreið sinni við til að vera nær rafgeymi bifreiðar (Benz) hins en þegar hann ætlaði að bakka hefði hann einhvern veginn fest fótinn undir bremsupetalanum þannig að hæll hans þrýstist niður á bensíngjöfina. Við það hefði bifreiðin farið á mikilli ferð afturábak og skollið á hiina.

Í tölvupósti, sem annar þeirra sendi tryggingarfélaginu, kvað hann jeppann hafa ýtt Benzinum á mölinni og meðal annars hafi stuðarinn eða prófíljárnið klemmt sig í bílinn svo að hjakka hafi þurft bílnum til að losa hann. Síðar í sama tölvupósti segir hann að ef förin á Benz-bifreiðinni séu skoðuð sjáist hvar prófíljárnið fari inn í hurðina neðarlega, og við höggið hafi bíllinn greinilega lyfst upp eða gengið vel til þar sem tvö önnur högg séu skáhallt upp á við og greinilega mjög laus.

„Stangast þessi lýsing algjörlega á við ljósmyndir sem ákærði tók sjálfur en hann stillti bifreiðunum upp þannig að vinstra afturhorn jeppabifreiðarinnar nam skáhallt á móts við frambretti Benz-bifreiðarinnar. Er útilokað að jeppabifreiðin hafi fyrst fests við bílstjórahurð Benz-bifreiðarinnar, verið hjakkað til til að losa bifreiðarnar sundur og síðan bakkað skáhallt á frambrettið og skemmt það eins og skýrlega kemur fram á ljósmyndum. Þá stangast þessi lýsing ákærða einni á við uppdrátt af afstöðu bifreiðanna á tjónstilkynningunni sem báðir ákærðu fylltu út,“ segir í dómi héraðsdóms þar sem fram kemur að þessi framburður ákærða  sé allur með ólíkindum og að engu hafandi, enda fullyrti ákærði að það hafi eingöngu orðið einn árekstur. 

Annar þeirra fékk tíu mánaða dóm, þar af átta mánuði skilorðsbundið en sá er fæddur 1984 og var því tuttugu og þriggja ára þegar hann framdi bæði brotin. Samkvæmt sakavottorði  hefur honum nítján sinnum verið gerð refsing frá árinu 2002 fyrir ýmis umferðarlagabrot, m.a. ölvunar- og fíkniefnaakstur, þjófnað, fjársvik, vopnalagabrot, rangar sakargiftir og blekkingu, brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og áfengislögum. Ákveðið var að skilorðsbinda átta mánuði dómsins vegna þess hversu lengi málið hefur dregist í kerfinu.

Hinn maðurinn fékk fjögurra mánaða dóm og er hann allur skilorðsbundinn vegna þess dráttar sem orðið hefur á málinu. Sá var tvítugur þegar hann framdi brotið. Hann hefur sjö sinnum verið gerð refsing frá árinu 2005, m.a. vegna umferðarlagabrota, líkamsárásar og eignaspjalla. 

Ákærurnar í málinu:

Mennirnir voru báðir ákærðir fyrir tilraun til fjársvika með því að hafa í félagi útbúið og skilað til Vátryggingafélags Íslands þann 20. nóvember 2008, rangri tjónstilkynningu vegna tjóns á bifreið þess sem fékk þyngri dóm, í því skyni að svíkja út vátryggingabætur úr ábyrgðartryggingu bifreiðar hins mannsins, sem var tryggð hjá VÍS, án þess að tjón það hefði hlotist með þeim hætti sem lýst var í tjónstilkynningunni en í henni  kom fram að tjón bifreiðarinnar sem var verulega skemmd og óökuhæf, hefði orðið er jeppa var ekið aftur á bak á vinstri hlið Benz bifreiðarinnar. Reyndu ákærðu þannig með blekkingum að fá VÍS til að bæta tjónið en áætlaður kostnaður af viðgerð eða yfirtöku bifreiðarinnar var á bilinu kr. 1.000.000 – 2.000.000.

 Sá sem fékk þyngri dóm var ákærður fyrir að hafa 18. febrúar 2008 blekkt starfsfólk Varðar trygginga til að greiða fyrir viðgerð á bifreið sem ákærði hafði umráð yfir - en er samt ekki bifreiðin sem um ræðir í fyrri ákæru, að fjárhæð kr. 722.038, á grundvelli rangrar tjónstilkynningar þar sem því var lýst að ákærði hefði ekið bifreiðinni norður Selásbraut í Reykjavík en misst stjórn á henni með þeim afleiðingum að bifreiðin hafnaði á tré á gatnamótunum við Rofabæ þar sem hún skemmdist á vinstri hlið. Áður hafði ákærði skilað tjónstilkynningu til Vátryggingafélags Íslands með lýsingu um að þann 27. janúar 2008 hefði hann ekið bifreiðinni norður Selásbraut en annarri bifreið hefði skyndilega verið ekið í veg fyrir ákærða sem náði að forða árekstri með þeim afleiðingum að bifreið hans hafnaði á tré á gatnamótunum við Rofabæ þannig að hún skemmdist á vinstri hlið. VÍS gekk frá fullnaðaruppgjöri vegna tjónsins í tveimur greiðslum, samtals að fjárhæð kr. 250.000, sem greitt var þann 29. febrúar og 18. apríl 2008 á bankareikning unnustu ákærða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert