Göngugötur samþykktar af borgarráði

Miðborgin er falleg á aðventunni.
Miðborgin er falleg á aðventunni. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Borgarráð hefur samþykkt framtíðar fyrirkomulag göngugatna í miðborg Reykjavíkur. Hlutar af Pósthússtræti, Kirkjustræti, Hafnarstræti, Laugavegi og Skólavörðustíg verða göngugötur frá 1. maí til 1. október ár hvert. Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni.

Tilraunir hafa verið gerðar með göngugötur í miðborg Reykjavíkur á sumrin frá árinu 2011. Samkvæmt könnun Capacent hefur ánægja með göngugötur á sumrin aukist ár frá ári. Í könnun sem gerð var árið 2012 voru 63,2 % borgarbúa hlynntir sumargötum, árið eftir jókst það í 67,9% en í ár eru 76% borgarbúa hlynntir sumargötum.

Svipaðar lokanir og síðustu sumur

Samkvæmt nýju framtíðar fyrirkomulagi göngugatna í Reykjavík verða Pósthússtræti og Kirkjustræti göngugötur frá 1. maí til 1. október ár hvert. Vöruafgreiðsla verður heimil frá kl. 07.00 og 11.00 frá mánudegi til föstudags. Bifreiðastöður í Pósthússtræti sunnan Hafnarstrætis verða óheimilar meðan gatan er göngugata. Bílastæði fyrir hreyfihamlaða verða staðsett nálægt göngusvæði Kvosarinnar. Hafnarstræti verður göngugata frá 1. maí til 1. október að austanverðu frá Pósthússtræti. Umferð bíla verður heimiluð í Hafnarstræti frá Tryggvagötu.

Frá 1. maí til 1. október verður jafnframt Laugavegur  göngugata við Vatnsstíg, að gatnamótum Bankastrætis og Þingholtsstrætis og Skólavörðustígur verður göngugata við Bergstaðastræti. Vöruafgreiðsla verður heimil milli klukkan 07.00 og 11.00 frá mánudegi  til föstudags. Bifreiðastöður verða óheimilar á göngugötum. Blómakerum, bekkjum eða öðrum götugögnum komið fyrir í bílastæðum á svæðinu, eitt bílastæði á hverjum götukafla verður þó laust fyrir vöruafgreiðslu.

Göngugötur síðustu þrjár helgar fyrir jól

Þá var enn fremur samþykkt að göngugötur verði opnar og þar með lokað fyrir bílaumferð á fyrrgreindum götum um helgar á aðventunni dagana 5.-6., 12.-13. og 19.-20. desember. Á Þorláksmessu þann 23. desember verða göngugöturnar opnar frá kl. 15.00 til kl. 07.00 að morgni 24. desember 2015.

Í tilkynningu borgarinnar kemur fram að samráð verði haft við hagsmunaaðila um tímabundna innréttingu á göngugötum. Haft verður samband við ferlinefnd og fyrirkomulag bílastæða fyrir hreyfihamlaða og götugögn borin undir nefndina. Skipaður verður hópur  aðila frá umhverfis- og skipulagssviði, Höfuðborgarstofu og Bílastæðasjóði sem kanna á og vinnur tillögur að göngugötum fyrir tímabil utan tímabilsins sem skilgreint er hér fyrir ofan. Litið verður á slíkt sem tilraunaverkefni og vinna skal það í samráði við íbúa, rekstraraðila smávöruverslana, rekstraraðila veitingastaða, ferðaþjónustuaðila, menningarfyrirtæki, menningarstofnanir  og aðra hagsmunaaðila við göngugötusvæðið. 

Eftirfarandi tímabil verði skoðað innan hópsins:

  • Göngugötur í tengslum við Hönnunarmars
  • Göngugötur allar helgar frá miðjum mars 2016
  • Göngugötur á meðan á Iceland Airwaves 2016 stendur
  • Fyrirkomulag göngugatna á aðventunni 2016.
  • Hópurinn getur lagt til önnur tímabil sem verða skoðuð.
Svona verða göngugöturnar á aðventunni.
Svona verða göngugöturnar á aðventunni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert