Hærri einkunnir á höfuðborgarsvæðinu

Gömul mynd úr safni
Gömul mynd úr safni Eyþór Árnason

Einkunnir nemenda í fjórða og sjöunda bekk í samræmdum könnunarprófum eru yfir meðaltali í Reykjavík og Suðvesturkjördæmi. Í öðrum kjördæmum eru einkunnir lægri. Einkum í Suður- og Norðvestur-kjördæmi.

Í fjórða bekk eru reykvísk börn að meðaltali með einkunnina 5,9 í íslensku og 6,7 í stærðfræði á meðan jafnaldrar þeirra í Suðvesturkjördæmi eru með 5,8 í íslensku og 6,6 í stærðfræði. Landsmeðaltal er 5,7.

Í Norðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi er meðaleinkunn þeirra í íslensku 5,5 og í stærðfræði eru börn í Norðvesturkjördæmi að meðaltali með 6,3 í einkunn og í Suðurkjördæmi 6,5 og Norðausturkjördæmi 6,4.

12,5% tóku ekki próf í íslensku 

Þegar kemur að börnum í fjórða bekk sem ekki taka samræmd könnunarpróf er hlutfall þeirra sem er fjarverandi 4,9% fyrir landið í heild en í Suðvesturkjördæmi voru 5,6% nemenda fjarverandi í íslensku en 4,4% nemenda í Reykjavík.

Í stærðfræði eru 5,2% að meðaltali fjarverandi á landinu öllu en í Suðurkjördæmi eru aðeins 4,4% fjarverandi en 5,9% nemenda í Norðvesturkjördæmi. 

4,9% nemenda í fjórða bekk á landinu fengu undanþágu frá því að þreyta próf í íslensku í ár. Í Suðurkjördæmi fengu hins vegar 6,4% þeirra undanþágu í íslensku og 5,2% í stærðfræði. Landmeðaltalið fyrir undanþágur frá stærðfræði í fjórða bekk er 3,6%. Undanþágurnar eru fæstar í  báðum námsgreinum í Suðvesturkjördæmi, 4,3% í íslensku og 2,9% í stærðfræði.

Hæstu einkunnirnar í SV-kjördæmi í báðum greinum í 7. bekk

Í sjöunda bekk eru hæstu einkunnirnar í Suðvesturkjördæmi bæði í íslensku og stærðfræði eða 6,2 að meðaltali í íslensku og 6,6 í stærðfræði. Landsmeðaltalið í íslensku er 6 og 6,4 í stærðfræði. Einkunnirnar eru lægstar í íslensku í Norðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi eða 5,8 í íslensku og fylgir Norðausturland þar fast á eftir með 5,9.

Í stærðfræði eru einkunnirnar lægstar í Norðvesturkjördæmi eða 6,1 og Norðausturkjördæmi með 6,2 í einkunn að meðaltali. Þar eru hins vegar nemendur í Suðurkjördæmi að meðaltali með 6,3 í einkunn.

Fyrir landið í heild eru 4,5% fjarverandi í íslenskuprófinu í sjöunda bekk en 5,4% í stærðfræði. Flestir eru fjarverandi í íslenskuprófinu í Reykjavík eða 4,9% en fæstir í Norðausturkjördæmi eða 3,4%. 

Í stærðfræði eru fjarvistir mestar í Norðausturkjördæmi en minnst er um forföll hjá nemendum í Norðvesturkjördæmi eða 4,1%. 

Alls fengu 5% nemenda í sjöunda bekk á landinu öllu undanþágu frá því að taka samræmt könnunarpróf í íslensku í ár. Í stærðfræði er hlutfallið 3,9%.

Undanþágurnar eru fæstar í íslensku í Suðvesturkjördæmi eða 3,6% en flestar í Suðurkjördæmi eða 7,1%. Í stærðfræði eru undanþágurnar fæstar í Suðvesturkjördæmi eða 2,2% en flestar í Suðurkjördæmi eða 6,1%.

Talsvert lakari einkunnir á landsbyggðinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert