Salmann „sópaði af borðum með ofsa“

Salmann var formaður Félags múslima á þeim tíma sem Menningarsetrið …
Salmann var formaður Félags múslima á þeim tíma sem Menningarsetrið var stofnað og hefur nú aftur tekið við formennsku. mbl.is/Golli

Ítarlegar lýsingar á klofningnum milli stjórnar Félags múslima á Íslandi og stofnenda Menningarseturs múslima er að finna í bókinni Undir Fíkjutré - saga af trú, von og kærleika sem kom út nú fyrir skömmu. Bókin er skrifuð af Önnu Láru Steindal heimspekingi og Ibrahem Faraj, sem kom til Íslands árið 2002 sem pólitískur flóttamaður en bókin fjallar um ævi hans og segir m.a. einnig frá sambandi menningarsetursins við Stofnun múslima eins og mbl.is sagði frá í gær.

Frétt mbl.is: Óeðlileg pressa frá leigusölum

Menningarsetrið var stofnað árið 2009 en fram að því hafði Félag múslima verið eina trúfélag múslima á Íslandi. Í viðtali við Vísi árið 2010 sagði Salmann Tamimi, formaður félagsins forsvarsmenn Menningarsetursins hafa verið rekna úr félaginu fyrir að ýta undir öfga.

Þeim ásökunum höfnuðu talsmenn Menningarsetursins á sínum tíma og í Undir fíkjutré hrekur Ibrahem, sem var fyrsti gjaldkeri setursins, þær enn frekar. Segir hann ástæðu aðskilnaðarins fyrst og fremst grundvallast í ólíkum hugmyndum um hlutverk moskunnar og hlutverk múslima í íslensku samfélagi.

„Við sem vorum nýkomnir þráðum að njóta sannmælis, hinir sem voru löngu komnir óttuðust að dragast inn í hringiðu samfélagsátaka eftir að hafa búið í sátt og samlyndi við samfélagið í ár og jafnvel áratugi,“ segir Ibrahim í kaflanum „Menningarsetur múslima á Íslandi“ um rætur aðskilnaðarins. Hann nefnir einnig áherslu sína á að bjóða börnum upp á nám í arabísku sem sem hann segir hafa verið illa tekið af stjórn Félags múslima.

Æviráðið öldungarráð

Upprunalega hugðist Ibrahem koma þessum sjónarmiðum á framfæri með því að bjóða sig fram til stjórnarsetu í Félagi múslima. Samkvæmt lögum félagsins starfi hinsvegar æviráðið öldungaráð yfir stjórn félagsins sem hafi úrslitaáhrif á ákvarðanir stjórnar. Þótti honum það ekki heillavænleg leið til að sporna gegn öfgatrú enda væri slíkt skipulag ólýðræðislegt og samband hans við stjórn félagsins stirðnaði. Ibrahem hætti að finna sig í starfinu og segir hann andrúmsloftið hafa orðið æ þyngra og árekstrana tíðari.

Upp úr sauð þegar Ibrahem og vinur hans Fadhel Meddeb ákváðu að halda kvöldverðarveislu í bænahúsi félagsins, sem Ibrahem kallar mosku, í Ármúla fyrri part árs 2008. Hafði gestum verið uppálagt að koma með mat og segir hann að skipuleggjendur hafi dreymt um að skapa hefð fyrir því að hittast yfir máltíð í moskunni og bjóða vinum sem ekki játa íslam að koma og kynnast því sem þar fer fram. Borð voru dúkuð, leirtau og matföng lagt á borð og stólum raðað í kring. 

Ibrahim segir Salmann hafa reiðst mikið og skyndilega þegar hann uppgötvaði fyrirætlanir þeirra.

„Þegar hann kom í moskuna skundaði hann inn í salinn þar sem við vorum að útbúa veisluhöldin og sópaði öllu niður á gólf með ofsa og tilheyrandi látum. Síðan hringdi hann í lögregluna og óskaði eftir því að hún sendi menn sér til aðstoðar.“

Úr varð að tveir lögregluþjónar komu á staðinn en hurfu fljótt af vettvangi þar sem þeir gátu ekki séð neitt í aðstæðunum sem þarfnaðist úrlausnar lögreglu, að sögn Ibrahem. Segir hann uppákomuna hafa verið leiðinlega og kjánalega og að hún hafi skotið bæði börnum og fullorðnum sem á staðnum voru skelk í bringu.

Hugmyndin fór illa í okkar gamla formann

Útfrá þessum viðburði töldu þeir Ibrahem og Fadhel fullreynt að þeir ættu ekki samleið með Félagi múslima. Því, segir Ibrahem, ákváðu þeir að stofna sitt eigið félag, Menningarsetur múslima.

„Hugmyndin fór illa í okkar gamla formann og hann reyndi að koma í veg fyrir að henni yrði hrint í framkvæmd. Meðal annars kærði hann Fadhel, sem var talsmaður hins nýja félags, til Ríkislögreglustjóra fyrir öfgafull sjónarmið og hryðjuverkaáform.“

Segir Ibrahem Fadhel hafa mætt til yfirheyrslu og að eftir það hafi málið verið látið niður falla. 

„Síðan hefur því ítrekað verið haldið fram af talsmönnum Félags múslima á Íslandi, og í einhverjum tilvikum haft gagnrýnislaust eftir í fjölmiðlum, að við hefðum verið reknir úr félaginu fyrir öfgafullar skoðanir. Það er ekki rétt. Við gengum úr félaginu vegna þess að hugmyndir okkar um hlutverk moskunnar og okkar sem múslíma í íslensku samfélagi fengu ekki hljómgrunn.“

Kápa bókarinnar undir fíkjutré.
Kápa bókarinnar undir fíkjutré. Ljósmynd/Sagautgafa.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert