Tugir á götunni í Reykjavík

Haraldur Sigurðsson lögreglumaður ræðir við systur Janmarí
Haraldur Sigurðsson lögreglumaður ræðir við systur Janmarí mbl.is/Sigurður Bogi

Um 60 til 70 manns eru um þessar mundir á götunni í Reykjavík. Þetta er fólk sem hefur ekki fótfestu í lífinu, ef svo má segja, og er á vergangi, svo sem vegna vímuefnaneyslu. Fólk þetta á sitt húsaskjól helst á þeim stöðum sem reknir eru í nafni velferðar, til dæmis í Gistiskýlinu við Lindargötu, í smáhýsum á Granda eða í búsetukjörnum. Að mati kunnugra eru það þó aðeins innan við tíu manns sem eru algjörlega á götunni og hafa ruslageymslur, ræsisstokka eða húsasund sem næturstað. Mat fær fólkið gjarnan á kaffistofu Samhjálpar.

Morgunblaðið kannaði stöðu útigangsfólks í Reykjavík, sem á sér ýmsa hauka í horni og þar má til dæmis nefna lögregluna. Verkefni hennar á þessu sviði koma bæði í hlut lögregluþjóna sem sinna almennu eftirliti en Haraldur Sigurðsson hefur gjarnan sinnt þessum málum. Borgarverðir hét verkefni sem haldið var úti fyrir nokkrum árum þar sem tveir starfsmenn velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Haraldur, sem fulltrúi lögreglunnar, voru á ferðinni um borgina og mættu fólkinu á götunni í sínum aðstæðum. Buðu því aðstoð, sem gat verið að útvega fólki matarbita, koma því í húsaskjól eða á sjúkrahús, á meðferðarstofnanir eða annað eftir atvikum.

„Reynslan af starfi borgarvarða var mjög góð, við sinntum mörgum sem ella hefðu ekki fengið aðstoð,“ segir Haraldur.

Ómissandi fólk

Þegar Morgunblaðið sagði frá starfi Borgarvarða sumarið 2012 voru 120 manns á götunni. Þótt 70 sé talan nú er hin samt ekkert endilega fallin úr gildi. Nákvæmt manntal á götufólk er ekki til og talan rokkar til og frá. Það eru fleiri í strætinu á sumrin en á veturna þegar kuldaboli er á ferð. Og háskalegur lífsstíll tekur á, hópurinn grisjast og fólki skolar fyrir borð. Því miður og „kirkjugarðar heimsins geyma ómissandi fólk“, orti KK og söng.

„Lögreglan stendur sína plikt gagnvart þessu fólki,“ segir Haraldur. „Auðvitað eigum við ekki að þurfa að hýsa útigangsfólk í fangaklefa, enda ætlaðir þegar vista þarf fólk af öðrum ástæðum. En auðvitað er erfitt að neita fólki um aðstoð, ef við höfum einhver tök á því.“

Mett hjá Teresu

„Það er alltaf von og Guð elskar þig,“ segir konan í kuflinum. Janmarí er ein af sex systrum í reglu heilagrar Teresu. Þær hafa starfað hér á landi í nokkur ár og í skála þeirra við Ingólfsstræti er opið hús alla morgna. Margir sem eru að brölta í brekkum lífsins líta þar inn. Algeng tala hvers dags er 25 til 40 manns. Það er þumalputtareglan að hópurinn skiptist; til helminga Íslendingar og fólk af erlendu bergi brotið.

Gestinir eru eins ólíkir og þeir eru margir. Þarna voru …
Gestinir eru eins ólíkir og þeir eru margir. Þarna voru til dæmis hin sýrlensku Wael Aliyadah og Feryal Aldahash sem komu til Íslands fyrir þremur mánuðum með dætur sínar, Jouli og Jönu. mbl.is/Sigurður Bogi

Úr klaustrinu við Ingólfsstræti fara mettir magar, á borðum er brauð frá Bernhöft og alls konar álegg, kaffi á könnu og hafragrautur í potti. Gestinir eru eins ólíkir og þeir eru margir. Þarna voru til dæmis hin sýrlensku Wael Aliyadah og Feryal Aldahash sem komu til Íslands fyrir þremur mánuðum með dætur sínar, Jouli og Jönu. Mál þeirra hefur verið í umfjöllun fjölmiðla að undanförnu.

„Við erum í algjörri óvissu á Íslandi og þá er gott að koma hingað í Ingólfsstræti,“ segir Wael. Taka skal fram að hjúin og dætur þeirra eru ekki útigangsfólk í þeirri merkinu sem hér að framan er notuð. Þau eru hins vegar í tómarúmi og í leit að framtíð og öryggi en ekki er ljóst hvernig mál þeirra þróast.

Gistiskýlið er griðastaður. Langt er síðan borgin setti þessa starfsemi á laggirnar og til skamms tíma hafði Samhjálp hana með höndum. Nú er borgin tekin við starfseminni, sem nýlega var flutt úr gamla Farsóttarhúsinu við Þingholtsstræti niður á Lindargötu. „Hér eru 29 gistirými og það er nánast alltaf fullskipað. Núna hefur að vísu aðeins slaknað á, en kunnugir segja mér að þegar kólni komi menn sér í ríkari mæli inn hjá vinum, fjölskyldu og slíkum,“ segir Sveinn Allan Morthens forstöðumaður. Hans skoðun er sú að rýmin í Gistiskýlinu megi helst ekki vera fleiri. Betra sé að koma skjólstæðingunum í varanlegt skjól og finna lausnir sem duga við vanda hvers og eins.

„Þegar ég tók hér við þessu starfi í vor kom mér svolítið á óvart hve víðtæka þjónustu borgin í raun veitir útigangsfólki. Það er margt í gangi. Næturgestir fara héðan úr húsi klukkan tíu á morgnana en hér er þó opið allan daginn. Þá til að taka við mönnum sem eru „lappalausir“, eins og ég kalla það. Geta enga björg sér veitt og eru illa á sig komnir. Við leyfum þeim að liggja hér uns eitthvað meira er hægt að gera í þeirra málum,“ útskýrir Sveinn sem segir að rösklega þriðjungur þeirra sem í gistiskýlið koma sé af erlendu bergi brotinn, einkum Pólverjar. Því hafi pólskumælandi fólk verið tekið inn í starfsmannahópinn að undanförnu í því skyni að bæta þjónustu.

Virðing fyrir veiku fólki

Meira um húsnæðismálin. Um áratugur er síðan smáhýsin á Grandanum voru opnuð. Þau eru fjögur og geta tveir búið í hverju þeirra. Húsin hafa verið nánast fullsetin frá upphafi og aðstaðan er góð. „Hér gefst fólki kostur á að dvelja um lengri eða skemmri tíma en færa sig síðan í varanlegri búsetu,“ segir Jónas Jónsson, sem veitir þessari starfsemi forstöðu. Hann hefur starfað við meðferð áfengissjúkra í áratugi og þekkir málaflokkinn út og inn. Hann segir Reykjavíkurborg hafa gert vel í þjónustu við þennan hóp – og fólki á götunni bjóðist margir möguleikar á leið sinni til betra lífs, svo sem með því að fá inni til dæmis í búsetukjörnum og taka síðan skrefin út í lífið.

„Það er samt mikilvægt að hafa í huga að alltaf er fólk sem er á jaðrinum. Við getum aldrei tæmt brunninn. Það verður líka að bera virðingu fyrir veiku fólki sem glímir við geðraskanir eða vill vera í neyslu. Það fólk þarf fyrst og síðast hjálp og stuðning,“ segir Jónas.

Atli Sæmundsson
Atli Sæmundsson mbl.is/Sigurður Bogi

 „Núna þarf ég að redda mér einhverju örvandi,“ sagði Atli Sæmundsson í samtali við Morgunblaðið. Hann býr með unnustu sinni í einu smáhýsanna á Grandanum og þar hafa þau verið síðastliðin þrjú ár. Atli er reyndar á förum því hann ætlar í meðferð, ekki þá fyrstu, til Svíþjóðar strax eftir áramótin og „verð þar um óákveðinn tíma“ eins og hann kemst að orði. Hann lætur vel af búsetunni vestur við höfn. Atli hafði átt erfiðar stundir þegar blaðamaður tók hann tali. Vinkona hans lést nóttina áður og fráhvarf úr vímunni reif í. „Ég þarf skammt á hverjum degi, en það er mjög misjafnt hve stóran skammt. Núna þarf ég talsvert því ég er þunnur og veikur. Er með hausverk og beinverki svo þetta er ekkert voðalega gaman. Vantar eiginlega morfín, vona að ég reddað einhverju og það er ekkert mál ef maður þekkir rétta fólkið. Ég ætla núna út í banka og taka út peninga og labba síðan eitthvað niður í bæ.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert