Tvöfalt fleiri sækja um vernd

AFP

Mikil aukning hefur verið í fjölda umsókna um vernd á Íslandi síðastliðin ár en það sem af er árinu 2015 hafa borist 309 umsóknir. Ef miðað er við fjölda umsókna þann 31. október sl. hafði fjöldinn rúmlega tvöfaldast frá því á sama tíma í fyrra. 

Eins og áður hefur komið fram á vef Útlendingastofnunar var um fordæmalausan fjölda fólks að ræða sem sótti um vernd í ágúst og september sl., samtals 110 einstaklinga. Í október fækkaði umsóknum lítillega miðað við september en þá bárust 57 umsóknir. Frá 1. nóvember til  24. nóvember sóttu 34 einstaklingar um vernd. Miðað við framangreinda þróun má ætla að umsóknum um vernd muni áfram fjölga hérlendis.

Þrátt fyrir mikla fjölgun á milli ára (rúmlega tvöfalt fleiri umsóknir frá sama tíma í fyrra) hefur tekist að halda málsmeðferðarhraða undir 90 daga viðmiði í flestum málum og hefur stofnunin afgreitt 299 mál á árinu sem einnig er fordæmalaus fjöldi, samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun.

Veitingar hafa aldrei verið fleiri og í nóvember einum fengu 20 einstaklingar vernd. Samtals hafa þá 76 einstaklingar fengið vernd á árinu, og þá er ekki meðtalið kvótaflóttafólk.

„Fyrir hver 100 mál sem komið hafa inn á árinu hefur 97 málum verið lokið. Breytingar á verklagi sem m.a. byggja á hugmyndafræði straumlínustjórnunar, aukið fjármagn til stofnunarinnar og fjölgun starfsmanna á þar stærstan hlut að máli.

Samhliða fjölgun umsókna um vernd hefur hlutfall veitinga hækkað. Aldrei hefur jafnmörgum einstaklingum verið veitt vernd og það sem af er þessu ári en hinn 24. nóvember höfðu 76 einstaklingar fengið vernd hérlendis, þar af fengu 20 einstaklingar umsókn sína um vernd samþykkta í nóvember. Að meðtöldu kvótaflóttafólki sem þegar er komið til landsins telur fjöldinn 88 einstaklinga. Eru þá ótaldir þeir 55 kvótaflóttamenn sem væntanlegir eru til landsins í desember,“ segir á vef Útlendingastofnunar.

Flestir frá ríkjum á Balkanskaganum 

Langflestir þeir sem sótt hafa um vernd á Íslandi það sem af er ári koma frá Albaníu, eða 34%, en umsóknir einstaklinga frá Albaníu, Kósóvó og Makedóníu nema samanlagt allt að helmingi allra umsókna. Tæplega 10% umsækjenda koma frá Sýrlandi, 6% frá Írak, 4% frá Íran og 2% frá Palestínu svo dæmi séu tekin.

„Samsetning hælisleitenda á Íslandi með tilliti til þjóðernis er þannig mjög frábrugðin samsetningu hælisleitenda í öðrum Evrópuríkjum en þar eru einstaklingar frá Sýrlandi og öðrum stríðshrjáðum ríkjum í Mið-Austurlöndum stærstu hóparnir. Aðstæður meirihluta hælisleitenda sem hingað koma eru þ.a.l. að nokkru leyti frábrugðnar því sem gengur o gerist í nágrannalöndum okkar, a.m.k. miðað við stöðuna undanfarin misseri.

Veitingarhlutfall það sem af er ári er rúmlega 25% og eru þá meðtaldir allir þeir sem hafa fengið vernd, viðbótarvernd og dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Einstaklingar með ríkisfang frá 27 ríkjum hafa fengið vernd á árinu. Á tímabillinu frá 1. janúar til og með 24. nóvember var synjað um vernd í 38% tilvika og í rúmlega 25% tilfella var mál viðkomandi ekki tekið til efnislegrar meðferðar vegna þess að umsækjandi var með dvalarleyfi í öðru (öruggu) landi eða mál hans var til meðferðar í öðru ríki og hann sendur þangað á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Á tímabilinu frá 1. janúar til og með 31. október drógu 11% umsókn sína um vernd til baka,“ segir á vef Útlendingastofnunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert