Umferðin mjakast áfram

Umferðin gekk rólega í morgun en oft eru það þeir …
Umferðin gekk rólega í morgun en oft eru það þeir sem hafa trassað að skipta yfir á vetrardekk sem eru að tefja fyrir öllum hinum. mbl.is/Árni Sæberg

Umferðin hefur gengið stórslysalaust fyrir sig á höfuðborgarsvæðinu í morgun en mjög hægt, segir Árni Friðleifsson í umferðardeild lögreglunnar. Hann biður ökumenn að sýna biðlund því þrátt fyrir að búið sé að ryðja allar helstu stofnleiðir á höfuðborgarsvæðinu er enn unnið að mokstri í minni götum. Miklar tafir hafa orðið á umferð í nýjum hverfum í Kópavoginum og í fleiri sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. 

Tilkynnt hefur verið um einhver umferðaróhöpp til lögreglu í morgun en ekkert alvarlegt. Að sögn Árna eru enn einhverjar bifreiðar í umferðinni sem eru vanbúnar til aksturs í vetrarfærð og hefur það áhrif á alla aðra í umferðinni.

Jólasnjór yfir borginni

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er hálka mjög víða á Suðvesturlandi, til að mynda á Hellisheiði, Reykjanesbraut og víða á höfuðborgarsvæðinu.

Á Suðurlandi er snjóþekja og hálka allt austur í Kvísker. Snjóþekja og hálka er á Vesturlandi.

Á sunnanverðum Vestfjörðum er ófært á Klettshálsi en hálka er á öðrum fjallvegum og snjóþekja eða hálkublettir eru á láglendi. Snjóþekja, skafrenningur og éljagangur er á fjallvegum á norðanverðum Vestfjörðum, hálka, hálkublettir eða snjóþekja á láglendi. Ófært er úr Bjarnarfirði í Árneshrepp.

Á Norðurlandi vestra eru hálkublettir eða snjóþekja og eitthvað um éljagang. Á Norðausturlandi er þæfingur á Brekknaheiði, annars er hálka og éljagangur á flestum fjallvegum. Hálkublettir og snjóþekja á láglendi. Snjókoma er með ströndinni. Á Austurlandi er hálka eða hálkublettir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert