Vildi geta lesið á mjólkurfernurnar

Fidu Abu Libdeh einn af stofnendum GeoSilica á Ásbrú.
Fidu Abu Libdeh einn af stofnendum GeoSilica á Ásbrú. Geosilica

Fida Abu Libdeh var 16 ára þegar hún flutti til Íslands með fjölskyldu sinni. Móðir hennar Amal Tamimi hafði þá fengið atvinnu- og dvalarleyfi á Íslandi og hér átti Amal bróður, Salmann Tamimi sem aðstoðaði fjölskylduna við að koma sér fyrir.

Fida þekkir þó vel hvernig er að vera innflytjandi með rætur í stríðshráðu landi og finnur til samkenndar með öllu því fólki sem nú flýr stríðshrjáð heimalönd og óskar eftir að setjast að í löndum þar sem friður ríkir, m.a. á Íslandi.

„Ég er stríðsbarn og veit alveg hvernig fólkinu líður. Fólk er ekki að koma hingað af því að það hati landið sitt og vilji ekki búa þar, heldur af því að það er neytt til þess. Þess vegna skiptir miklu máli hvernig er tekið á móti því, vegna þess að síðasta úrræði þess er að flýja land og leita betra lífs. Ég tek það líka nærri mér þegar fólk er að alhæfa og setja alls kyns titla á fólk eftir trúarbrögðum eða útliti og dæma um hvernig það eigi eftir að haga sér. Til varnar þessu fólki tek ég oft sjálfa mig sem dæmi, því ég er ekkert öðruvísi en þú, þó ég sé dekkri og eigi önnur trúarbrögð,“ segir Fida við Morgunblaðið.

Fordómarnir komu seinna

Fida segir þetta þó ekki hafa verið sín reynsla þegar hún flutti til Íslands 16 ára gömul. Íslendingar hafi tekið henni og fjölskyldu hennar vel og það á sjálfsagt stóran þátt í því hversu vel þeim gekk að samlagast íslensku samfélagi.

„Við bjuggum fyrst hjá frænda mínum Salmann í nokkra mánuði en fluttum svo í Kópavoginn. Þar tóku nágrannar okkar vel á móti okkur. Fólk kom með föt til okkar og húsgögn, bauð okkur í afmæli og kom til okkar í afmæli og færðu okkur afmælis- og jólagjafir. Við vorum velkomin allsstaðar þar sem við komum. Það er öðruvísi þegar maður kemur inn í landið sem flóttamaður, þá tekur við ákveðið kerfi sem heldur utan um mann þangað til maður hefur fest rætur. Við völdum hins vegar að koma og þá er stuðningur minni.“

Fida segir sama hafa verið upp á teningnum þegar hún var í skóla, fannst hún ekki merkja fordóma í sinn garð fyrir að vera innflytjandi frá Palestínu. „Þetta er eiginlega svolítið sérstakt, ég þekkti ekki fordóma og fannst ég því ekki verða fyrir fordómum fyrr en seinna. Þegar ég var orðin fullorðin fór ég að hugsa meira um fordóma, hvað fordómar væru. Þá fannst mér ég frekar upplifa fordóma vegna þess að ég væri kona en ekki innflytjandi. En það er auðvitað verra að vera kona og innflytjandi. Þegar ég fullorðnaðist og fór að segja mína skoðanir þá fannst mér fólk ekki dæma mig út frá skoðunum mínum heldur sagði að ég hugsaði svona af því ég væri kona og innflytjandi,“ segir Fida gráglettin.

Átak MS skilaði árangri

Það er aðdáunarvert að hlusta á Fidu mæla á íslenskri tungu, aldrei er hik í samtalinu og íslenskan rennur áreynslulaust þó vissulega heyrist að Fida er af erlendu bergi brotin. Það er ekki síður áhugavert að heyra hvað varð kveikjan að brennandi áhuga Fidu á að læra íslenskt mál. „Ég man alltaf hvað það fór í taugarnar á mér að geta ekki lesið hvað stóð á mjólkurfernunum. Það var markmið mitt fyrst og fremst að vita hvað stæði á mjólkurfernunum. Það skiptir líka máli hvað íslenskan er vernduð, menningin í kringum tungumálið og hvernig íslenskan er út um allt. Þetta smitaðist til mín og hjálpaði mér að læra. Mjólkurfernan var eitthvað sem ég þurfti að kaupa og vildi skilja hvað stóð á henni. Ég var viss um að það væri eitthvað mjög skemmtilegt.“

Hún segir það sama upp á teningnum með það flóttafólk sem nú sé að koma til Íslands, það ætli að setjast hér en ekki koma til að starfa tímabundið og finnist því ekki taka því að læra íslensku. „Til þess að geta lifað hér og vera þátttakandi í samfélaginu, verður þú að læra málið.“

Lesblinda fjötur um fót

Íslenskunámið í skólakerfinu reyndist þó langt frá því að vera auðvelt fyrir Fidu þrátt fyrir jákvæða hvatningu frá málræktarátaki Mjólkursamsölunnar. Fida veltist um í íslensku skólakerfi og gekk illa í íslensku- og dönskunámi en skuldinni var alltaf skellt á þá staðreynd að hún ætti ekki íslensku að móðurmáli. Henni tókst ekki að klára stúdentspróf og þrátt fyrir að hafa margsinnis sótt um undanþágu frá íslensku- og dönskunámi og fá að einbeita sér að raungreinum, sem lágu vel fyrir henni, því hún átti sér þann draum að komast í háskóla, voru dyrnar á íslensku skólakerfi lokaðar. Þar til hún uppgötvaði Keili á Ásbrú.

„Í millitíðinni var ég hins vegar búin að gefast upp og árið 2004 fór ég aftur til Palestínu og var ekki nema rúma sjö mánuði, því ég var orðin miklu meiri Íslendingur en ég hélt. En þetta var mikil barátta því ég átti mér þann draum að klára námið mitt en gat það aldrei.“

Dæmið snerist við í Keili, þar var minni áhersla lögð á tungumálin og Fidu gert kleift að einbeita sér að því sem hún gerði vel. Það sem meira var, hún var send í lesblindugreiningu sem gaf jákvæða niðurstöðu og var því undirrót erfiðleikanna í málanáminu. Frá því lá leiðin bara upp á við, enda Fida komin með úrræði í hendurnar sem auðveldaði námið til muna og efldi hana mikið í íslensku. Að sögn Fidu skiptu hljóðbækur þar sköpum.

Fida útskrifaðist fyrst af Háskólabrú Keilis með viðskiptafræði og hagfræði sem fagsvið og hóf svo nám í tæknifræði við skólann um leið og það bauðst árið 2009. Um það leyti sem Fida var að útskrifast árið 2012 hófst ævintýrið með framleiðslu fæðubótarefnis úr kísli, sem hvergi sér fyrir endann á né hvernig á eftir að þróast um ókomin ár.

GeoSilica fær góðar viðtökur

„Ég tók orku- og umhverfistæknifræði og þar vorum við að skoða mikið jarðvarma, orkunýtingu og hvernig hægt er að nýta afurðir úr jarðhitavirkjunum á sjálfbæran hátt. Í lokaverkefninu var ég mikið að skoða rannsóknir á áhrifum kísils á bakteríur og sveppi í samstarfi við Matís og Burkna Pálsson, samstarfsmann minn, sem var að skoða leiðir til að hreinsa kísil án þess að nota aukaefni. Þá datt ég inn á rannsóknir þar sem tilgreint var að kísill væri notaður sem fæðubótarefni, væri tekinn til inntöku. Á sama tíma fann Burkni leið til að hreinsa kísil án þess að nota aukaefni. Í framhaldi ákváðum við að stofna fyrirtæki,“ segir Fida um upphafi framleiðslu fæðubótarefnisins geoSilcia sem nú hefur verið á markaðnum í rétt tæpt ár. Í júní sl. lauk Fida MBA námi með uppbyggingu fyrirtækisins svo það hefur verið í mörg horn að líta.

Fyrsta verkefni hins nýstofnaða fyrirtækis var að sækja um verkefnastyrk til tækniþróunarsjóðs Rannís. Fida og Burkni höfðu þá fengið þjálfun í umsóknarferlinu, s.s. viðskiptaáætlun og markaðssetningu í skólanum. Þróunin tók tvö ár og því var varan að koma fyrst á markað í janúar 2015. „Þróunin snérist um að koma í veg fyrir botnfall í vökvanum og hreinsa kísilinn án aukaefna því við vildum hafa þetta eins náttúrulegt og hægt væri.“

Maður ársins á Suðurnesjum - Fida Abu Libdeh - Páll …
Maður ársins á Suðurnesjum - Fida Abu Libdeh - Páll Ketilsson - Víkurfréttir Sigurður Bogi Sævarsson

Framleiðendurnir nota affallsvatn frá Hellisheiðarvirkjun og framleiðslan fer þar fram á hverjum degi. Allar prófanir á framleiðslunni fara hins vegar fram í höfuðstöðvunum í Eldey á Ásbrú. Vörunni er tappað á hjá fyrirtækinu Pharmarctica á Grenivík sem er vottað sem vinnslustöð lífrænna afurða (GMP vottun) og við það fær geoSilica sama vottunarstimpil. Fimm starfsmenn vinna við framleiðslu og markaðssetningu vörunnar.

Hefði ekki geta gert þetta án stuðnings maka

Nokkur reynsla er komin á vöruna og hafa framleiðendurnir fengið góð viðbrögð frá notendum. Kísillinn þykir reynast vel í baráttunni við gigt, á liðverki og við húðsjúkdómum á borð við psoriasis. Sölustaðir á Íslandi eru orðnir yfir 80 og vinna við erlenda markaði komin vel á veg, m.a. í Danmörku, Kanada og Þýskalandi.

Fyrirtækið er enn smátt og þannig verður það áfram, að sögn Fidu meðan verið er að styrkja innviði þess betur. Það þýðir að starfsfólk gengur í öll störf því yfirbygging er engin og oft um sjálfboðavinnu að ræða. Hún segir það einkenna störf frumkvöðla.

En hvenær hættir frumkvöðull að vera frumkvöðull?

„Einu sinni frumkvöðull, alltaf frumkvöðull,“ segir Fida og játar að hún hefði aldrei getað staðið í þessari uppbyggingu með óreglulegum vinnutíma og óreglulegri innkomu nema njóta stuðnings frá maka sínum. Saman eiga þau þrjú ung börn og reka heimili á Ásbrú.

Fida fékk fyrr á þessu ári Euwinn viðurkenningu fyrir nýsköpunina geoSilica og komst í topp 10 hóp framúrskarandi ungra Íslendinga árið 2013. Í ársbyrjun var hún útnefnd Suðurnesjamaður ársins af Víkurfréttum. Þá eru ótaldar fjölmargar viðurkenningar sem fyrirtækið hefur fengið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert