Snjódýpt í Reykjavík 32 sentímetrar

Það er lítið mál að leika sér á brettum í …
Það er lítið mál að leika sér á brettum í Reykjavík núna. mbl.is/Golli

Töluverður snjór féll í höfuðborginni í nótt og eru götur og gangstígar þungfærar, en snjómoksturstæki eru nú víða að störfum. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands mældist snjódýpt í Reykjavík 32 sentímetrar.

„Í gær var snjódýptin 21 sentímetri og kom það aðfaranótt föstudagsins,“ segir Teitur Arason, Veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is og bætir við að heildarmæling eftir snjókomuna í gærkvöldi og nótt gefi nú 32 sentímetra af nýföllnum snjó.

Mesta snjódýpt sem mælst hefur í Reykjavík í nóvember var, samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Veðurstofu Íslands, árið 1978, en þá mældist snjór 38 sentímetrar.

Að sögn Teits snjóaði hins vegar mun meira í nótt en aðfaranótt föstudags þó svo að snjódýptarmæling gefi það ekki til kynna. Ástæðan fyrir því er sú að sá snjór sem féll nú síðast virðist hafa náð að þjappa vel þeim sem fyrir var.

Spurður hvort hann eigi von á frekari snjókomu í höfuðborginni í dag kveður Teitur nei við. „Við eigum nú ekki von á því en það er svolítið erfitt að spá fyrir um þetta því þetta eru litlir bakkar, sem eru að myndast yfir sjónum í kringum okkur, og veðurspárnar eiga erfitt með að sjá hvar og hvenær þeir taka á land,“ segir hann.

Veðurstofan gerir hins vegar ráð fyrir norðanátt sem ætti að halda frekari snjókomu frá höfuðborgarsvæðinu í dag og á morgun.

„Það verður þó ekkert hvass vindur og má gera ráð fyrir sól. Það verða því fallegir og jólalegir dagar á höfuðborgarsvæðinu í dag og á morgun,“ segir Teitur.

Allar helstu leiðir Kópavogsbæjar eru nú færar samkvæmt upplýsingum þaðan en verið er að moka íbúagötur og mun sú vinna standa í allan dag. Eru ökumenn beðnir um að aka eftir aðstæðum.

Meðfylgjandi eru myndir sem ljósmyndari Morgunblaðsins og mbl.is tók á ferð sinni um Reykjavík. 

Fyrri frétt mbl.is:

Allt á kafi í höfuðborginni

mbl.is/Eggert
mbl.is/Eggert
mbl.is/Eggert
mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert