Borgarbúar taki sér skóflu í hönd

Borgarbúar eru beðnir um að taka fram skóflu og moka frá sorpílátum og greiða aðgengi að þeim með því að moka leið fyrir starfsmenn sorphirðu Reykjavíkurborgar. Kemur þetta fram í tilkynningu frá borginni.

Mjög hefur snjóað í höfuðborginni fyrir og um helgina og eru götur og gangstígar því margir hverjir erfiðir yfirferðar. Þannig mældist t.a.m. snjó­dýpt í Reykja­vík 32 sentí­metr­ar.

Það getur því verið erfitt fyrir sorphirðuna að halda áætlun nema íbúar vinni með henni. „Borgarbúar eru vinsamlegast beðnir að kanna aðstæður við sorpgeymslur. Á sumum stöðum þarf að moka frá sorpgeymslum og hálkuverja, á öðrum stöðum þarf að losa tunnur sem eru ef til vill bundnar niður,“ segir í áðurnefndri tilkynningu.

„Starfsfólk sorphirðunnar hjá Reykjavíkurborg þakkar kærlega öllum sem sjá sér fært að sinna þessu verkefni. Það munar miklu að íbúar hafi aðkomuna sem besta fyrir sorphirðufólkið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert