Íslenskir fangar fá jógakennslu

Þórir segir að fangelsisvist verði að vera betrunarvist.
Þórir segir að fangelsisvist verði að vera betrunarvist. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fangelsið á Sogni er um margt sérstakt. Engar girðingar eða múrar afmarka fangelsið. Fangar fá þau verkefni að sjá sjálfir um eldamennsku og almenn heimilisstörf og síðustu mánuði hefur þeim boðist að stunda jóga með kennara nær vikulega.

Ástæða þess að jógakennslan fer ekki fram á sama tíma í hverri viku er sú að hún veltur á því hvenær jógakennarinn, Þórir Kristinsson, á frí til að sinna henni enda fer hún fram í sjálfboðavinnu.

„Ég er lærður jógakennari og þó að það sé ekki mitt aðalstarf þá er það hluti af mínu lífi. Mig langaði til að finna náminu farveg og prófa eitthvað alveg nýtt í lífinu. Það var svo sl. vetur þegar ég var með jógatíma úti í bæ að til mín kom maður sem hafði verið í neyslu og tómu rugli. Honum fylgdi samt mjög áhugaverð orka. Flottur strákur að mér fannst, innvið beinið. Þannig datt mér í hug að fara með jógakennslu inn í fangelsin. Það var vissulega áskorun fyrir mig en maður vex með því að fara út fyrir þægindarammann.“

Þórir hafði samband við Margréti Frímannsdóttur, forstöðumann á Sogni, sem tók hugmyndinni vel og gerði Þóri kleift að fara með jógakennslu inn í fangelsið.

Að Sogni eru rúmlega 20 fangar, allt karlar og er hverjum í sjálfvald sett hvort hann tekur þátt í jógatímunum. Þórir segir mismikla þátttöku en að í raun skipti fjöldinn ekki máli. Hver tími er rúmlega klukkustund þar sem hópurinn gerir jógaæfingar og endað er á hugleiðslu.


„Innihaldið er hefðbundið jóga en umbúðirnar eru svolítið öðruvísi en gengur og gerist. Þetta er allt frekar hrátt þar sem tímarnir fara jú fram innan veggja fangelsisins. Það er lítið um lúxus hérna,“ segir hann.

Þóri finnst lúxusleysið þó persónulega geta verið gott því hann telur inntak jóga eiga það til að týnast í ímynd og umbúðum.

„Í jóga gefst okkur tækifæri á að mæta okkur eins og við erum í raun og veru, með kostum okkar og göllum, líkamlega og andlega. Það reynir á en býður upp á kjöraðstæður til að vaxa. Það er a.m.k. upprunalegt hlutverk jóga. Að því leytinu er fangelsi góður staður til að kenna jóga. Við erum bara eins og við erum. Enginn okkar þarf eða getur verið að þykjast vera fullkominn hér inni. Það er frelsi í sjálfu sér.“

Þórir segist nálgast fangana sem jafningja.
Þórir segist nálgast fangana sem jafningja. mbl.is/Árni Sæberg

Stilla hljóðfærið áður en spilað er

Þórir segist ekki vita til þess að jóga hafi áður verið kennt í íslenskum fangelsum en að boðið hafi verið upp á hugleiðslu með jákvæðum árangri. Aðspurður hversu opnir fangarnir séu fyrir jóga segir hann það misjafnt hversu móttækilegt fólk er og sömu lögmál gildi um það hvort sem menn séu í steininum eða gangi lausir.

„Ég held að menn í fangelsum séu kannski með harðari skel utan á sér en gengur og gerist og ég virði það algerlega. Það er bara hluti af þeirra raunveruleika. En að því sögðu er ég kominn þangað inn vegna þess að ég veit hvaða möguleika regluleg jógaiðkun hefur upp á að bjóða. Það getur gert okkur líkamlega sterkari og liðugri. Jógað bjargaði bakinu á mér fyrir nærri 20 árum og þótt ég sé misgóður er ég viss um að æfingarnar halda mér réttum megin við strikið,“ segir Þórir.

„Ég lærði Kundalini-jóga og þar er mikil áhersla á að vinna með hugann og mikið er um hugleiðslu. Ég varð hrifinn af því þó að mér hafi fundist það furðulegt fyrst. Það var svo mætur kennari sem útskýrði tilgang hugleiðslunnar með því að líkja því við það að stilla hljóðfæri áður en spilað er á það. En áhrif jóga á fólk eru aðeins misjöfn. Það fer m.a. eftir því á hvaða stigi í þroska við erum hvert og eitt. Í einfaldaðri mynd held ég að ég geti sagt að jóga hafi burði til að gera nútímamanninn skýrari í hausnum ef svo má að orði komast. Þannig getur það m.a. hjálpað okkur að taka aðeins betri ákvarðanir. Ég held að það sé einmitt það sem menn sem sitja í steininum hafi gott af. Reyndar við öll.“

Verður að vera betrunarvist

Þórir segist gera sér grein fyrir að hann breyti ekki heiminum einn en það sé heldur ekki markmiðið. Hann hefur mikla trú á því að jóga geti hjálpað föngum að takast betur á við sjálfa sig og umhverfi sitt. Hann bendir á að jóga njóti vaxandi vinsælda á óvæntum stöðum eins og Wall Street og sé jafnvel að ryðja sér rúms innan skólakerfisins á Íslandi. Þá hafi jóga verið kennt í fangelsum í Bandaríkjunum í yfir áratug og gefist vel.

„Fangelsisvist verður að vera betrunarvist. Það þarf að beita öllum leiðum til að undirbúa menn fyrir endurkomu út í lífið. Jóga leysir ekki öll lífsins vandamál en getur verið eitt hráefnið í þeirri endurbót. Það er auðvelt að ýta þessu til hliðar en staðreyndin er að hvort sem okkur líkar betur eða verr eru þetta mennirnir sem við munum hitta þegar þeir koma aftur út í lífið,“ segir Þórir.

„Það er augljóst að það er allra hagur að þessir menn hafi sem besta möguleika á að takast á við lífið og umhverfi sitt á uppbyggilegan hátt þegar þeir koma út á ný.“

Sogn er um margt ólíkt hefðbundnum fangelsum.
Sogn er um margt ólíkt hefðbundnum fangelsum. mbl.is/Rax

Jógakennarar óskast

Þórir segist vonast til að finna fleiri jógakennara til að vinna með sér að þessu verkefni svo hægt verði að byggja upp gott „prógramm“ og jafnvel fara í fleiri fangelsi.

„Ég er að leita að traustum kennurum til að gera þetta með mér. Kannski les þetta einhver sem er tilbúinn að láta slag standa. En menn verða að finna þetta hjá sér sjálfir, a.m.k. þar til yfirvaldið veitir fjármagn í þetta og ræður kennara til starfa. Einn daginn gerist það,“ segir hann.

„Ég nálgast strákana á því sviði þar sem við erum jafningjar, bara á dýnunni á gólfinu. Ég er meðvitaður að dæma þá ekki, það sjá aðrir um það. Ég hef verið spurður hvort ég óttist þá ekki og svarið er nei. Ég virði þá og þeir virða mig. Ég er bara að færa þeim jóga og það gerir einhverjum gott. Það er nóg.“

Hann segir stundirnar með föngunum honum mjög dýrmætar. „Ég sjálfur verð aldrei dýrlingur eða móðir Teresa. Það er til fullt af fólki sem er að gera góða hluti sem fara ekki hátt. Svo eru aðrir sem hafa það í sér að gefa aukalega af sér en vita ekki hvernig eða jafnvel þora það ekki. Ég var lengi af stað, fannst ég ekki nógu góður. En svo uppgötvar maður að við erum aldrei fullkomin, þó að sumir haldi það. Það er reyndar versta blekkingin en við erum bara á þroskabraut alla ævi.“

Þórir skorar á þá sem hafa það í sér að gefa af sér að taka af skarið enda séu verkefnin næg.

„Ég geri ekki lítið úr því að eiga peninga því þeir eru til ýmissa hluta nytsamlegir en varðandi sjálboðastörf í þágu annarra þá kemur greiðslan í formi þakklætis frá fólki sem virkilega meinar það. Þar að auki fylgir sú tilfinning að þú sért e.t.v. að gera heiminn að örlítið betri stað til að búa á. Eins og staðan er í dag þá held ég að allir séu sammála um að ekki veiti af.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert