Tendrað á Óslóartrénu

Hátt í þúsund manns voru á Austurvelli í dag þegar tendrað var á Óslóartrénu og lét unga kynslóðin sig ekki vanta þrátt fyrir smá kulda. Tendrun ljósanna hefur verið hefð um áratuga skeið og markar upphaf jólahalds í borginni.

Kynnir á dagskránni var Gerður G. Bjarklind og þá sungu Stefán Hilmarsson og Ragnheiður Gröndal jólalög fyrir gesti, ásamt fjölda annarra tónlistarmanna. 

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri veitti grenitrénu viðtöku frá Khamshajiny (Kamzy) Gunaratnam, varaborgarstjóra Óslóar, sem afhendir Reykvíkingum tréð að gjöf. Það var svo Birkir Elías Stefánsson, sjö ára norsk-íslenskur drengur, sem tendraði ljósin á trénu. 

Jólasveinarnir Skyrgámur, Kertasníkir og Bjúgnakrækir kíktu við og vöktu gleði hjá yngri gestum. 

Tréð er að venju fagurskreytt ljósum en Skyrgámur, jólaórói Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra 2015, prýðir meðal annars tréð. Skyrgámur er tíundi óróinn í jólasveinaseríu Styrktarfélagsins en hefð er fyrir því að jólaóróar félagsins prýði tréð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert