Hætta á snjóflóðum á Tröllaskaganum

Norður í Hörgárdal gekk á með éljum í gær.
Norður í Hörgárdal gekk á með éljum í gær. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Siglufjarðarvegi úr Fljótum um Almenninga og veginum um Ólafsfjarðarmúla var lokað í gær vegna snjóflóða og frekari hættu á þeim. Þá var allt á kafi í snjó í bæjum á Tröllaskaga. Þar snjóaði mikið um helgina og götur á Siglufirði voru ófærar. „Hér eru flestar götur færar. Við höfum oft séð þetta verra,“ sagði Birgir Ingimarsson, bæjarverkstjóri í Fjallabyggð. Í gær fór sitthvað úr skorðum nyrðra vegna veðurs og aðventuviðburðum var aflýst.

Í dag er gert ráð fyrir þokkalegu veðri á landinu. Búast má við hægri norðanátt og minniháttar éljagangi á Norðurlandi og svipuðu suðvestanlands. Á morgun, þriðjudag, fer að hvessa af austri og norðaustri og þá er líklegt að lausasnjór fari að fjúka. Nær það til alls vestanverðs landsins, úr suðri og vestur á firði og gæti því fylgt einhver röskun svo sem á samgöngum. Þessi spá er hins vegar háð ýmsum fyrirvörum. Snjókoman gæti jafnvel orðið slydda því skammt sunnan við land er mildara loft og nái það að ströndu hlánar.

Annars er frost í kortunum fyrir alla vikuna. Syðra verður gaddurinn um fimm stig, en austanlands gæti hann farið niður í fimmtán stig, segir á vef Veðurstofu Íslands.

Snjór er nú yfir öllu höfuðborgarsvæðinu og allan laugardaginn voru snjóruðningsmenn á fullu við að ryðja götur og torg. Greiðfært var í borginni í gær en það gæti breyst ef hreyfir vind.

Í gærkvöldi var send út tilkynning frá sorphirðudeild borgarinnar þar sem fólk var beðið um að moka frá ruslatunnum og geymslum og auðvelda þannig störf við sorphirðu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert