„Sagt upp“ í fimleikum vegna fötlunar

Ungir fimleikakappar í Björk. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Ungir fimleikakappar í Björk. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Golli

Mynd sem móðir ungs fimleikakappa með Downs-heilkenni deildi á samfélagsmiðlum hefur farið víða síðastliðinn sólarhring. Við myndina skrifar móðir drengsins að honum hafi verið „sagt upp hjá Fimleikafélaginu Björk vegna fötlunar sinnar eftir að hafa æft þar í rúmt ár“.

Í samtali við mbl.is segir faðir drengsins, sem hvorki vill láta nafn síns né nafn sonar síns getið, að málið reki sögu sína eitt og hálft ár aftur í tímann. Sonur hans tók sér frí frá fimleikum í þann tíma en hefur nú hafið æfingar á ný hjá Gerplu þar sem fjölmargt fólk með fatlanir stundar fimleika.

„[Formaður Bjarkar] vill meina að þetta hafi allt verið misskilningur og að þau hafi bent okkur á Gerplu í góðu en hann fékk neitun um að stunda þarna fimleika og hann er ekki fyrsta barnið sem hefur fengið það. Ingvari finnst leiðinlegt að þetta sé okkar upplifun en þetta er ekki bara okkar upplifun, þetta er bara staðreynd.“

Hann segir Björk hafa boðið ákveðnar leiðir til að sonur hans gæti æft þar áfram. Í forskólahópnum sem drengurinn hefði átt að fara í mega foreldrar ekki vera inni í salnum á meðan á æfingum stendur en þess í stað bauð Björk foreldrunum að borga fyrir aðstoðarmanneskju fyrir drenginn. Það þótti þeim ekki boðlegt.

„Þau vildu honum allt hið besta en töldu það ekki rýmast innan síns fjárhags að ráða eina manneskju til viðbótar til að vera eyrnamerkt fötluðum krökkum.“

Bæjarfélagið ber einnig ábyrgð

Faðir drengsins segir ekki hægt að setja alla sökina á Björk enda hafi bæjarfélagið ekkert aðhafst til að leiðrétta misræmið milli tækifæra fatlaðra og ófatlaðra barna til æfinga. Segir hann bæjarstjóra Hafnarfjarðar Harald L. Haraldsson raunar hafa beint því til fimleikafélagins að bæta úr málinu en að engin fjárframlög til málefnisins séu sýnileg af hálfu bæjaryfirvalda.

„Ég sá frétt um daginn þar sem Hafnarfjarðarbær var að láta Bjarkirnar hafa einhvern styrk til að leggja nýtt gólf í salnum. Ég sendi Haraldi strax tölvupóst um hæl og spurði hvort það væri ekki um að gera að nýta allavega hluta af þessum styrk til að greiða fyrir annan þjálfara fyrir börn með sérþarfir?“

Hann segir sig og konu sína þó sátta við stöðuna enda gangi syninum afar vel í dag með Gerplu.

„Hann er bara eins og önnur börn, hvort sem þau eru með sérþarfir eða ekki eru þau misvel upplögð í hvert skipti en það eru frábærir þjálfarar hjá Gerplu. Eins og Ingvar viðurkennir þá eru þau bara með betra og reyndara fólk fyrir þessa krakka.“

Gerpla betur í stakk búin                     

Ingvar Kristinsson, formaður Fimleikafélagsins Bjarkar harmar upplifun foreldra drengsins og segir það ekki hafa verið ætlunin að gefa til kynna að hann væri ekki velkominn.

„Það er ekki það sem við ætluðum okkur, það eru allir velkomnir að æfa hvaða íþrótt sem við bjóðum upp á.“

Segir hann að af samtali við föður drengsins hafi honum orðið ljóst að það sem sitji í honum sé m.a. að foreldrunum hafi verið bent á Gerplu í stað Bjarkar.

„Hugmyndin hjá okkur var einfaldlega sú að við vissum að þetta væri flott og gott starf með þessa einstaklinga hjá Gerplu og við vildum bara vekja athygli á því. Við höfum gert og gerðum ýmislegt til að geta haft hann áfram hjá okkur og hefðum vonast til þess að hafa hann áfram en þau skráðu hann ekki í haust og fóru með hann í Gerplu. Það er þeirra upplifun að við höfum úthýst honum og það er lítið við því að gera.“

Ingvar segir félagið ávalt gera sitt til að sjá börnum með fatlanir og sérþarfir fyrir plássi í starfi félagsins. „Við höfum hvorki úthýst einum né neinum út af fötlun, þroskahömlun eða neinu slíku. Við erum ekki eins vel í stakk búin og Gerpla, það er bara augljós staðreynd og við reynum ekki að fegra það neitt. “

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert