11 greinst HIV-jákvæðir í ár

Meðan engin lækning við HIV er í augsýn er smokkurinn …
Meðan engin lækning við HIV er í augsýn er smokkurinn alltaf besta forvörnin. Það gildir því að nota hann alltaf og nota hann rétt. mbl.is/Eggert

Það sem af er þessu ári hafa 11 manns greinst HIV-jákvæðir. Alls hafa því 332 greinst með HIV/alnæmi frá upphafi greininga árið 1983. Karlar eru í miklum meirihluta.

Þetta kemur fram á vef landlæknis, en í dag er alþjóðlegur baráttudagur gegn HIV-alnæmi. Á árinu 2014 greindust alls 10 manns með HIV, þar af voru sex samkynhneigðir, þrír gagnkynhneigðir og einn sprautufíkill. 

Þar segir ennfremur að í lok árs 2014 hafi fjöldinn verið 321, en þar af voru 226 karlar og 95 konur. Ef skoðuð er dreifing HIV eftir smitleiðum voru 38% gagnkynhneigðir, 38% samkynhneigðir og 20% sprautufíklar. Flestir sem greinst höfðu voru á aldrinum 20–49 ára, eða 86% allra greindra. 

Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) voru undir lok ársins 2014 tæplega 37 milljónir manna með HIV/alnæmi í heiminum. Á árinu 2014 smituðust um tvær milljónir manna af HIV og 1,2 milljónir létust úr alnæmi á heimsvísu.

Faraldurinn er mestur í Afríku, sunnan Sahara, en um 70% af nýsmituðum í heiminum eru frá því svæði.

Þeir sem greinast hér á landi hafa gott aðgengi að HIV-lyfjum. Skipta lyfin miklu máli fyrir langlífi og lífsgæði hins HIV-jákvæða. Talið er fólk sem tekur HIV-lyf sín á hverjum degi geti átt von á því að lifa fram á gamalsaldur og lífsgæði þeirra batna líka til mikilla muna, að því er segir á vef landlæknis.

Auk þess hefur komið í ljós að séu HIV-jákvæðir í virkri HIV-meðferð minnka verulega líkur á smiti gegnum kynlíf. Það er því til mikils að vinna fyrir fólk að fara í kynsjúkdómaskoðun hafi það minnsta grun um HIV eða annað kynsjúkdómasmit.

Hægt er að fara í HIV-próf á húð- og kynsjúkdómadeild Landspítala eða á heilsugæslustöðvum landsins. Til að auðvelda aðgengi fólks að greiningu er skoðun, meðferð og eftirfylgni sjúkdómsins þeim að kostnaðarlausu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert